Barnaverndarþjónusta

 

Tilkynning til barnaverndar - einstaklingar

Tilkynning til barnaverndar - stofnanir

Verklag um afhendingu gagna

Þann 1. janúar 2023 tók Barnaverndarþjónusta Mið-Norðurlands til starfa. Þjónustan er samstarf fjögur sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag í Barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands og ber ábyrgð á barnavernd í nánu samstarfi við aðildarsveitarfélögin.

Eftirfarandi sveitarfélög standa að Barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands:

Húnabyggð - hunabyggd.is

Húnaþings vestra – hunathing.is

Skagafjörður - skagafjordur.is

Skagaströnd – skagastrond.is

Starfsmenn þjónustunnar eru níu. Yfirmenn félagþjónustusvæða umræddra sveitarfélaga mynda fagráð þjónustunnar og stýra mótun hennar. Vikulegir tilkynninga- og meðferðarfundir ákvarða málsmeðferð einstakra barnaverndarmála þar sem allir starfsmenn þjónustunnar mynda heildstætt teymi þekkingar, menntunar og reynslu.

Barnaverndarþjónusta Mið-Norðurlands er einnig aðili að Umdæmisráði landsbyggðanna, en þangað færast mál ef taka þarf ákvarðanir í andstöðu við foreldra og börn.

Yfirmaður þjónustunnar er Rakel Kemp Guðnadóttir rakelkemp@skagafjordur.is leiðtogi farsældar, fræðslu og ráðgjafar Skagafjarðar. Fólk getur hringt í Neyðarlínuna, 112, og tilkynnt um óviðunandi aðstæður barna. Neyðarlínan er opin allan sólarhringinn. Starfsmenn barnaverndarþjónustunnar bregðast við neyð allan sólahringinn í gegnum neyðarlínuna.

Hægt er að senda rafræna tilkynningu til barnaverndar hér.

Hvað er barnavernd?

Börn eiga rétt á vernd og umönnun. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og annast þau eins og best hentar hag og þörfum þeirra, búa þeim viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra. Öllum ber okkur að sýna börnum virðingu og umhyggju.

Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Þetta er einkum gert með því að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu. Öllum foreldrum og þeim sem hafa samskipti við börn stendur til boða almenn ráðgjöf hjá félagsráðgjafa. Ef nauðsyn þykir er unnt að bjóða upp á ýmis önnur stuðningsúrræði sem barnaverndarþjónustan hefur yfir að ráða.

 

Hlutverk Barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands

Ef barn býr við óviðunandi aðstæður vegna:

  • vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra
  • áreitni eða ofbeldis af hálfu annarra
  • barn stefnir heilsu og þroska í hættu með hegðun sinni

 

kemur í hlut barnaverndarþjónustu að tryggja að barnið og fjölskyldan fái nauðsynlega aðstoð. Taka þarf eftir atvikum formlega ákvörðun um að hefja könnun á málinu. Síðan eru málefni barnsins unnin á grundvelli laga um barnavernd.

Börn og foreldrar njóta skýrra réttinda við vinnslu slíkra mála.
Heimildir barnaverndarþjónustu eru skilgreindar í lögum og tilteknar skyldur lagðar á starfsmenn hennar. Alltaf er leitast við að tryggja réttaröryggi fjölskyldna og áhersla lögð á góða samvinnu foreldra og starfsfólks.

 

Tilkynningaskylda

Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:

  1. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
    b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
    c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Sérstök tilkynningaskylda er lögð á fólk sem starfar með börnum, t.d. starfsmenn skóla, heilsugæslu og lögreglu.

Á dagvinnutíma getur fólk snúið sér beint til starfsmanna barnaverndar í ráðhúsinu með tilkynningar, spurningar eða vangaveltur varðandi barnaverndarmál með því að hringja í 455 6000/455 2400.

Trúnaður og nafnleynd

Starfsmenn Neyðarlínu 112 og starfsmenn barnaverndarþjónustu eru bundnir trúnaðarskyldu. Í barnaverndarlögunum er einnig fjallað um nafnleynd þess sem tilkynnir. Almenningur, ættingjar eða aðrir nákomnir, geta óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en starfsfólki barnaverndarþjónustu. Þá er slík beiðni virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Opinberir aðilar t.d. skóli, leikskóli, sjúkarhús eða heilbrigðisstofnun, tilkynna í embættis nafni og njóta því ekki nafnleyndar.

Tenglar

Barna- og fjölskyldustofa (bvs.is)
Lög og reglugerðir um barnaverndarmál (sjá Barna- og fjölskyldustofu)

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?