1175. Fundur

1175. Fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn þriðjudaginn 2. maí 2023 kl. 15:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Magnús Magnússon formaður, Friðrik Már Sigurðsson varaformaður og Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri.
Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg.

Magnús Magnússon formaður setti fund.

Afgreiðslur:

Magnús Vignir Eðvaldsson vék af fundi kl. 15:02.
1.
2303059 Stytting vinnuviku kennara í Grunnskóla Húnaþings vestra. Lögð fram tillaga vinnustyttingarhóps kennara Grunnskóla Húnaþings vestra að fyrirkomulagi á styttingu vinnuviku kennara skólaárið 2022-2023. Jafnframt var lagt fram minnisblað frá sviðsstjóra fjölskyldusviðs um tillöguna. Sviðsstjóri leggur til að tillagan verði samþykkt. Byggðarráð samþykkir tillöguna.
Magnús Vignir Eðvaldsson kom aftur til fundar kl. 15:07.

2. 2304024 Bréf frá Sigurði Ingva Björnssyni vegna urðunar dýrahræja þar sem gerðar eru athugasemdir við urðun dýrahræja eftir niðurskurð vegna riðu. Byggðarráð vill koma á framfæri að urðun var eini kosturinn sem unnt var að fara vegna bilunar á brennsluofni Kölku. Allar leiðir aðrar voru fullreyndar. Um framkvæmd urðunarinnar er vísað á Matvælastofnun sem hafði umsjón með henni skv. tilskipun matvælaráðuneytis.

3. 2304027 Tilkynning um bann við búfjárbeit. Lögð fram til kynningar tilkynning frá Ástmundi Norland og Hanný Norland, um að búfjárbeit í landi Flatnefsstaða er ekki heimil nema með sérstöku leyfi. Einnig er því mótmælt að heimaland jarðarinnar falli undir fjallskilaframkvæmd. Fjallskilastjórn Vesturhóps hefur verið tilkynnt um bannið.

4. 2304031 Bréf frá útgerðinni Steina HU45 vegna úthlutunar byggðakvóta. Gerðar eru athugasemdir við reglur sveitarfélagsins um úthlutun byggðakvóta. Byggðarráð þakkar athugasemdirnar og bendir á að undanfarin ár hafi verið gerðar breytingar á reglunum í þá átt að veiðireynsla hefur nú minna vægi. Reglur fyrir yfirstandandi fiskveiðiár hafa þegar verið staðfestar af matvælaráðuneyti. Erindið verður haft til hliðsjónar þegar reglur verða yfirfarnar fyrir næsta fiskveiðiár.

5. 2304035 Sigurvald Ívar Helgason vegna gjafar til Félagsheimilisins Hvammstanga. Lagt fram bréf frá Sigurvald Ívari þar sem hann óskar eftir að færa Félagsheimilinu Hvammstanga tjöld til hljóðdempunar í sal að gjöf, földuð og tilbúin til upphengingar. Byggðarráð þakkar Sigurvald Ívari rausnarlega gjöf og samþykkir að sveitarfélagið annist uppsetningu þeirra í samráði við gefanda.

6. 2304036 Bréf frá foreldrum barna við Vatnsnesveg vegna skólaaksturs. Í bréfinu gera foreldrar athugasemd við að í nýafstöðnu útboði skólaaksturs sé gert ráð fyrir að börn verði sótt í Helguhvamm. Telja foreldrar breytinguna leiða til umtalsverðrar lengingar á aksturstíma og að heimreiðin geti verið hættuleg. Einnig lagt fram minnisblað frá sviðsstjóra fjölskyldusviðs vegna málsins. Þar kemur fram að erfitt er að sjá að lenging aksturstíma verði í samræmi við áhyggjur foreldra og á móti kemur stytting á heildarkílómetrafjölda akstursleiðar miðað við fyrri ár. Aksturstími muni því ekki fara upp fyrir leyfileg viðmið. Einnig er bent á að skólabílstjórar verði alltaf að meta aðstæður hverju sinni á hverjum stað og bera ábyrgð á að fara ekki vegi sem eru hættulegir vegna aðstæðna. Sviðsstjóri leggur til að ekki verði gerðar breytingar á fyrirhuguðu fyrirkomulagi skólaaksturs en að framkvæmdin verði metin með tilliti til reynslu fyrir árslok 2023. Magnús Magnússon og Friðrik Már Sigurðsson samþykkja tillögu sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Magnús Vignir Eðvaldsson óskaði að fært væri til bókar að hann tæki undir með bréfriturum að óeðlilegt sé að lengja lengstu akstursleið skólabarna á malarvegi. Magnús Vignir harmar að sér hafi yfirsést þessi breyting á akstursleið 5 frá síðasta útboði á skólaakstri.

7. 2304042 Grunnskóli Húnaþings vestra, beiðni um að mála gangstétt. Lögð fram beiðni Grunnskóla Húnaþings vestra um að mála að nýju í regnbogalitum, gangstétt sem endurnýjuð var í framkvæmdum nýverið. Einnig er óskað eftir leyfi til að mála framhliðar á tröppum sem liggja frá leiksvæði skóla upp að Kirkjuvegi í regnbogalitum. Byggðarráð samþykkir að veita leyfi fyrir málun gangstéttar og framhliðar trappa frá leiksvæði skóla upp að Kirkjuvegi í regnbogalitunum, enda sé framkvæmdin innan fjárhagsáætlunar ársins. Byggðarráð þakkar nemendum og starfsfólki Grunnskólans frumkvæði við að vekja athygli á fjölbreytileikanum og virðingu fyrir ólíkum einstaklingum með þessum hætti.

8. 2304045 Bókun umhverfis- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar vegna sauðfjárveikivarnagirðinga. Í bókuninni er skorað á matvælaráðuneyti og MAST að axla ábyrgð á hlutverki sínu við viðhald sauðfjárveikivarnargirðinga og frekara fjármagns í málaflokkinn krafist sem fyrst í ljósi aðstæðna í Miðfjarðarhólfi. Byggðarráð tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í bókuninni.

9. 2304046 Bókun Fjarðarbyggðar vegna sauðfjárveikivarna. Í bókuninni er bændum og öðrum íbúum í Miðfirði færðar hlýjar kveðjur í ljósi þeirra slæmu atburða sem þar hafa átt sér stað. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að aðgerðum við arfgerða­greiningar sé hraðað. Byggðarráð þakkar góðar kveðjur og tekur undir sjónarmið þau sem fram koma í bókuninni.

10.Útleiga íbúða að Garðavegi 18 neðri hæð og Garðavegi 20 efri hæð. Byggðarráð samþykkir að leigja Dictum ræstingu ehf. íbúðina að Garðavegi 18, neðri hæð, til 1. maí 2024. Byggðarráð samþykkir einnig að leigja Þorbjörgu Sigurbjartsdóttur íbúðina að Garðavegi 20, efri hæð frá 1. júní 2023.

11. Fundarboð:
a.
2304020 Aðalfundarboð Veiðifélags Víðidalsár þann 27. apríl 2023. Lagt fram til kynningar.
b. 2304023 Aðalfundarboð Landskerfis bókasafna hf. þann 9. maí 2023. Lagt fram til kynningar.
c. 2304030 Aðalfundarboð Markaðsstofu Norðurlands þann 16. maí 2023 á Hótel Laugarbakka. Unnur Valborg Hilmarsdóttir verður fulltrúi sveitarfélagsins á fundinum.

12. Fundargerðir lagðar fram til kynningar:
a.
2304022 Fundargerðir 922., 923. og 924. funda Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 31. mars, 5. apríl og 17. apríl 2023. 
b.
2304034 Fundargerð stjórnar Náttúrustofu Norðurlands vestra frá 25. apríl 2023. 
c.
2304039 Fundargerð 452. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands frá 19. apríl 2023.

13. Umsagnarbeiðnir:
a.
2304029 Beiðni um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu o.fl.), 922. mál. Umsagnarfrestur til 9. maí 2023. Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.
b.
2304032 Beiðni um umsögn um frumvarp til laga um Mennta- og skólaþjónustustofu, 956. mál. Umsagnarfrestur til 10. maí 2023. Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.
c. 2304041 Beiðni um umsögn um frumvarp til laga um kosningalög o.fl. (ýmsar breytingar), 945. mál. Umsagnarfrestur til 10. maí 2023. Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 16:29.

Var efnið á síðunni hjálplegt?