195. fundur

195. fundur landbúnaðarráðs Húnaþings vestra haldinn miðvikudaginn 2. nóvember 2022 kl. 13:00 Ráðhús.

Fundarmenn

Ingimar Sigurðsson varaformaður, Halldór Pálsson aðalmaður, Dagbjört Diljá Einþórsdóttir aðalmaður, Ármann Pétursson varamaður og Ingveldur Linda Gestsdóttir varamaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Varaformaður setti fund.

Dagskrá:

  1. Fjallskil í Víðidal.
  2. Vetrarveiði á ref, ákvörðun um aðila.
  3. Ormahreinsun hunda í dreifbýli.
  4. Erindi til MAST vegna endurnýjunar samnings um refa- og minkaveiði.
  5. Fjallskiladeildir, uppgjör styrkvega.
  6. Minnisblað vegna fjallagrasanytja á Arnarvatnsheiði.

Afgreiðslur:

  1. Fjallskil í Víðidal. Lagt fram bréf frá fjallskiladeild Víðdælinga varðandi fjallskil á Víðidalstunguheiði. Áður á dagskrá 194. fundar ráðsins. Í bréfinu er vísað í 40. grein fjallskilasamþykktar Húnaþings vestra þar sem segir: „Nú verður verulegur ágangur sauðfjár eða hrossa frá einu sveitarfélagi í annað og getur þá það sveitarfélag er fyrir ágangi verður óskað eftir að hitt sveitarfélagið greiði bætur fyrir áganginn eða sendi menn í göngur, ef það er talið heppilegra miðað við gangnakostnað og usla í högum. Miða skal greiðslu við fjallskilakostnað á fullorðna kind í því sveitarfélagi sem féð gengur í og skulu hverjar tvær kindur, sem til réttar koma, metnar sem ein gjaldeining. Réttarstjóri skal sjá um að telja það fé sem til réttar kemur. Verði ágreiningur um gjaldtöku skulu viðkomandi sveitarfélög tilnefna einn mann hver og sýslumaður einn mann í nefnd til að úrskurða um ágreiningsefnið.“ Byggt á framangreindu leggur fjallskiladeildin til að Húnabyggð verði gert að greiða það gjald sem heimamenn greiða á einingu, á helming fjár sem í réttir kom, eða 1.506 fjár. Heildarverð reiknast þar með kr. 662.640.  Landbúnaðarráð tekur undir sjónarmið fjallskiladeildarinnar um að sá fjöldi fjár sem til réttar kemur úr Húnabyggð sé óásættanlegur og nauðsynlegt sé að bregðast við. Ráðið felur sveitarstjóra að senda reikning samanber framangreint.

2.  Vetrarveiði á ref, ákvörðun um aðila. Auglýst var eftir aðilum til vetrarveiði á ref með umsóknarfrest til 1. nóvember sl. Eftirtaldir sóttu um:

Bjarni Kristmundsson, vegna veiða í austanverðum Hrútafirði.

Þorbergur Guðmundsson, vegna veiða á Miðfjarðarsvæði.

Benedikt Guðni Benediktsson og Kristófer Jóhannesson vegna veiða á Miðfjarðarsvæði.

Elmar Baldursson, vegna veiða á Vatnsnesi.

Björn Viðar Unnsteinsson, vegna veiða í Vesturhópi.

Landbúnaðarráð felur sveitarstjóra að gera samninga við eftirtalda aðila:

Bjarna Kristmundsson, vegna veiða í austanverðum Hrútafirði.

Þorberg Guðmundsson, vegna veiða á Miðfjarðarsvæði.

Elmar Baldursson, vegna veiða á Vatnsnesi.

Björn Viðar Unnsteinsson, vegna veiða í Vesturhópi.

Formanni falið að ræða við aðila vegna veiða í Víðidal og Bæjarhreppi.

3.  Ormahreinsun hunda í dreifbýli. Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 er skylt að ormahreinsa alla hunda fjögurra mánaða og eldri. Þar sem búrekstur er skulu hundar ormahreinsaðir að liðinni aðalsláturtíð eða í síðasta lagi í desember ár hvert. Sveitarstjóra er falið að vekja athygli á framangreindu á miðlum sveitarfélagsins og með auglýsingu í Sjónauka.

4.  Erindi til Umhverfisstofnunar vegna endurnýjunar samnings um refa- og minkaveiði. Lögð fram drög að bréfi þar sem farið er yfir þróun í veiðum á ref og mink í sveitarfélaginu. Áhersla er lögð á brýna þörf á veiðunum og auknu fjármagni til að mæta vaxandi kostnaði sveitarfélagsins á liðnum árum. Landbúnaðarráð samþykkir bréfið og felur sveitarstjóra að senda það til Umhverfisstofnunar.

5.  Fjallskiladeildir, uppgjör styrkvega. Þar sem dráttur hefur orðið á skilum á reikningum vegna vegavinnu er ekki unnt að leggja fram uppgjör. Samkvæmt samþykkt ráðsins frá því á 184. fundi skal reikningum skilað eigi síðar en 30. september. Verktakar eru hvattir til að skila reikningum sem allra fyrst, eigi síðar en 20. nóvember 2022. Reikningar sem berast eftir þann tíma verða ekki greiddir. Sveitarstjóra er veitt heimild til greiðslu reikninga sem berast fyrir 20. nóvember.

6.  Minnisblað vegna fjallagrasanytja á Arnarvatnsheiði. Unnið af Starra Heiðmarssyni forstöðumanni Náttúrustofu Norðurlands vestra í framhaldi af bókun ráðsins á 192. fundi þess. Í minnisblaðinu kemur fram að skoðun á fjórum stöðum bendir ekki til þess að ósjálfbær nýting hafi átt sér stað á Arnarvatnsheiði. Frekari rannsóknir þurfi til að meta nytjaþol svæðisins. Í minnisblaðinu kemur einnig fram að Náttúrustofa Norðurlands vestra telji rétt að leyfi til nytja á fjallagrösum á landi sveitarfélagsins verði bundið skilyrðum um upplýsingagjöf frá leyfishöfum. Til að vakta áhrif fjallagrasatínslunnar þurfa að liggja fyrir upplýsingar um þau svæði sem nytjuð eru og magn sem týnt er á hverju svæði. Slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til að vakta áhrifin og munu með tímanum gefa möguleika á mati á þoli svæðisins. Einnig væri rétt að leggja þær kvaðir á leyfisveitingu að ekki megi tína á sama svæði fyrr en að a.m.k. 10 árum liðnum, eða þar til betra mat á þoli svæðisins liggur fyrir.  Landbúnaðarráð þakkar Starra greinargóða samantekt. Sveitarstjóra er falið að móta drög að reglum um nytjar á fjallagrösum í löndum sveitarfélagsins í samræmi við ábendingar sem fram koma í minnisblaðinu og leggja fyrir ráðið.

 

Fundargerð upplesin, fundi slitið kl. 13:53.

Var efnið á síðunni hjálplegt?