Bókun byggðarráðs um alvarlega stöðu í landbúnaði

Bókun byggðarráðs um alvarlega stöðu í landbúnaði

Á 1195. fundi byggðarráðs Húnaþings vestra sem fram fór þann 30. október 2023 var sú alvarlega staða sem uppi er í landbúnaði til umræðu. Svohljóðand var bókað:

"Byggðarráð Húnaþings vestra lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu bænda og hugsanlegum áhrifum hennar á hinar dreifðari byggðir sem og matvælaframleiðslu í landinu. Miklar kostnaðarhækkanir og hátt vaxtastig undanfarin misseri hefur haft veruleg áhrif á rekstrarumhverfi flestra búgreina og nú er svo komið að fjölmargir bændur íhuga að bregða búi vegna stöðunnar.

Húnaþing vestra er landbúnaðarhérað og myndi fækkun í bændastétt hafa víðtæk afleidd áhrif í sveitarfélaginu. Ef stjórnvöldum er alvara með byggðastefnu sinni sem og yfirlýsingum um fæðuöryggi og mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu er nauðsynlegt að brugðist verði við með ákveðnum og skjótum hætti. Ef ekkert er að gert er hætta á mjög afdrifaríkum afleiðingum, ekki bara í stétt bænda heldur einnig hjá þeim fjölmörgu sem byggja afkomu sína að miklu leyti á þjónustu við landbúnað.

Byggðarráð bindur vonir við nýskipaðan starfshóp ráðuneytisstjóra vegna fjárhagsstöðu bænda og óskar eftir fundi með hópnum til að fara yfir meginsjónarmið í málinu."

Var efnið á síðunni hjálplegt?