Fjárhagsáætlun 2026 - gjaldskrár

Málsnúmer 2507019

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1250. fundur - 14.07.2025

Lögð fram tillaga Unnar Valborgar Hilmarsdóttur sveitarstjóra og Elínar Jónu Rósinberg sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að vinnulagi við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2026 ásamt 3ja ára áætlunar fyrir árin 2027-2029 fyrir sveitarsjóð og undirfyrirtæki.
Byggðarráð samþykkir framlagða tillögu og felur sveitarstjóra að undirbúa vinnuna í samræmi við hana.

Landbúnaðarráð - 220. fundur - 06.08.2025

Áminning um skil á umsóknum um fjárframlög á árinu 2026.
Landbúnaðarráð minnir fjallskiladeildir á að skila umsóknum um framlög árið 2026 eigi síðar en 15. september. Umsóknum er skilað á íbúagátt.

Byggðarráð - 1252. fundur - 20.08.2025

Lögð fram drög að minnisblaði um forsendur fjárhagsáætlunarvinnu 2026.
Byggðarráð samþykkir að gengið verði út frá þeim forsendum sem fram koma í minnisblaðinu.

Byggðarráð - 1254. fundur - 11.09.2025

Aukið byggðarráð fundar vegna fjárhagsáætlunar ársins 2026.



Ingimar Sigurðsson og Sigríður Ólafsdóttir boðuðu forföll.
Farið var yfir helstu forsendur gjaldskráa fyrir árið 2026.

Byggðarráð - 1254. fundur - 11.09.2025

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Fjárhæð frístundakorts verður kr. 25.000 fyrir árið 2026 fyrir börn allt frá fæðingu að 18. aldursári.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum.

Byggðarráð - 1254. fundur - 11.09.2025

Lagðar voru fram til kynningar starfsáætlanir forstöðumanna fyrir árið 2026.

Byggðarráð þakkar forstöðumönnum fyrir vel gerðar og metnaðarfullar starfsáætlanir fyrir komandi ár.

Byggðarráð - 1255. fundur - 22.09.2025

Farið yfir tillögu að fjárfestingaáætlun áranna 2026-2029.



Byggðarráð - 1255. fundur - 22.09.2025

Aukið byggðarráð fundar vegna fjárhagsáætlunar ársins 2026.

Sigríður Ólafsdóttir boðaði forföll.
Farið yfir umsóknir um styrki til félags-, menningar- og atvinnumála.

Byggðarráð - 1257. fundur - 06.10.2025

Bætt á dagskrá:
Lögð fram drög að fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 fyrir sveitarsjóð og undirfyrirtæki.
Byggðarráð samþykkir að vísa framlagðri fjárhagsáætlun ársins 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 fyrir sveitarsjóð og undirfyrirtæki til fyrri umræðu í sveitarstjórn þann 9. október 2025.

Sveitarstjórn - 394. fundur - 09.10.2025

Gjaldskrár 2026 sem þarfnast tveggja umræðna í sveitarstjórn lagðar fram til afgreiðslu.
Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hunda- og kattahald í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hirðu, móttöku- og flokkunarstöð úrgangs í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá sorphirðu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hreinsun og losun rotþróa í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hvammstangahöfn, hafnarsjóð.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Hitaveitu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Vatnsveitu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Brunavarna Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Sveitarstjórn - 394. fundur - 09.10.2025

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun ársins 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir að vísa framlagðri fjárhagsáætlun fyrir 2026 ásamt 3ja ára áætlun fyrir árin 2027 - 2029 fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki til síðari umræðu í sveitarstjórn þann 18. nóvember nk.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Byggðarráð - 1259. fundur - 20.10.2025

Lagt fram minnisblað um opnunartíma og gjaldskrá Leikskólans Ásgarðs í framhaldi af störfum starfshóps um opnunartíma leikskóla og grunnskóla í kjölfar kjarasamninga.
Í minnisblaðinu er farið yfir tillögur sem lúta að mögulegum breytingum á gjaldskrá til að mæta styttingu vinnuviku starfsmanna leikskólans án þess að komi til hækkana á gjaldskrá á hópa sem ekki geta stytt vistunartíma. Byggðarráð samþykkir að kalla saman að nýju starfshóp um opnunartíma leikskóla og grunnskóla sem skilaði tillögum sínum í apríl til að yfirfara framkomnar hugmyndir.

Byggðarráð - 1261. fundur - 03.11.2025

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 fyrir sveitarsjóð og undirfyrirtæki.

Byggðarráð samþykkir framlögð drög og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn - 396. fundur - 18.11.2025

GJALDSKRÁ FASTEIGNAGJALDA OG ÚTSVARS
Lögð fram eftirfarandi tillaga að gjaldskrá fasteignagjalda og útsvars, ásamt reglum um afslátt af fasteignaskatti árið 2026:

Útsvar 14,97 %
Fasteignaskattur A-gjald 0,45 % af fm. húss og lóðar
Fasteignaskattur B-gjald 1,32 % af fm. húss og lóðar
Fasteignaskattur C-gjald 1,42 % af fm. húss og lóðar

Lóðarleiga, almennt gjald 11,32 kr. pr. m2
Lóðarleiga, ræktað land 1,58 kr. pr. m2

Fráveitugjald 0,20 % af fm.húss og lóðar

Vatnsgjald 0,25 % af fm. húss og lóðar

Aukavatnsgjald 35 kr. pr. m3

Hreinsun rotþróa:
0-2000 lítra 18.825 kr. pr. þró
2001-4000 lítra 23.190 kr. pr. þró
4001-6000 lítra 25.350 kr. pr. þró
6001 lítra og stærri 6.400 kr. pr. m3

Sorpgjald á íbúðarhúsnæði, regluleg sorphirða 100.000 kr.
Sorpeyðingargjald, sumarbústaðir og íbúðir í dreifbýli þar sem ekki er hirt sorp 44.375 kr.

Lóðarleigu og fasteignaskatt skv. A-, B- og C- gjaldi skal innheimta frá fyrstu skráningu hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, en fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjöld skal innheimta frá þeim tíma að fasteign hefur verið skráð með byggingarstig BS 2.

Gjalddagar
Gjalddagi gjalda undir kr. 20.000 er 1. maí.
Gjalddagar gjalda sem eru á bilinu kr. 20.001 - 38.000 eru 1. apríl og 1. júlí.
Fasteignagjöld eigna sem eru hærri en kr. 38.000 hafa 8 gjalddaga, frá 1. febrúar 2026 til 1. september 2026.

Reglur um afslátt af fasteignaskatti árið 2026.
Reglur um afslátt af fasteignaskatti til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega eru vegna íbúðarhúsnæðis þeirra til eigin nota og fyrir þá sem eiga lögheimili í Húnaþingi vestra. Afslátturinn er tekjutengdur og miðaður við árstekjur 2024 samkvæmt skattframtali 2025, þ.m.t. eigna- og fjármagnstekjur og tekur einungis til fasteignaskatts.

Hámark afsláttar er 115.000 kr.

Tekjuviðmiðun:
Fyrir einstaklinga:
a) Með heildartekjur allt að 5.670.000 kr. fær 100% afslátt, þó að hámarki 115.000 kr.
b) Með tekjur umfram 7.650.000 kr. enginn afsláttur.

Fyrir hjón og samskattað sambýlisfólk:
a) Með heildartekjur allt að 7.650.000 kr. fær 100% afslátt, þó að hámarki 115.000 kr.
b) Með heildartekjur umfram 10.117.000 kr. enginn afsláttur.

Hlutfallslegur afsláttur er veittur samkvæmt framangreindu tekjubili.

Skilyrði fyrir afslætti er að viðkomandi búi sjálfur í húsnæðinu og hafi ekki af því leigutekjur. Sé fasteign skráð með leyfi til heimagistingar fellur afsláttur af fasteignagjöldum með öllu niður árið 2026. Í tilfelli hjóna eða sambýlisfólks, ræður aldur þess sem fyrr verður 67 ára án tillits til þess hvort þeirra er skráð fyrir eigninni.

Við andlát maka styrkir sveitarsjóður eftirlifandi um sömu upphæð og nemur álögðum fasteignaskatti ársins að fullu.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

GJALDSKRÁR TIL EINNAR UMRÆÐU
Lögð fram tillaga að gjaldskrá Grunnskóla Húnaþings vestra, dreifnáms og fjarnámsstofu.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Leikskólans Ásgarðs.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Tónlistarskóla Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá bóka- og héraðsskjalasafns Húnaþings vestra og Félagsmiðstöðvarinnar Óríon.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Íþróttamiðstöðvar Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá geymslusvæða í Grænulaut.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Félagsheimilisins Hvammstanga.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá þjónustumiðstöðvar.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.


GJALDSKRÁR TIL SEINNI UMRÆÐU
Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hunda- og kattahald í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hirðu, móttöku- og flokkunarstöð úrgangs í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá sorphirðu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir hreinsun og losun rotþróa í Húnaþingi vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Hvammstangahöfn, hafnarsjóð.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Hitaveitu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Vatnsveitu Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá Brunavarna Húnaþings vestra.
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.


Sveitarstjórn - 396. fundur - 18.11.2025

Lögð fram til seinni umræðu fjárhagsáætlun árins 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki.
Lögð fram svohljóðandi tillaga:

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2026, ásamt 3ja ára áætlun fyrir árin 2027 - 2029.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.


Greinargerð með fjárhagsáætlun 2026
Óvissa um þróun verðbólgu og óhagstætt vaxtaumhverfi heldur áfram að vera áskorun í rekstri Húnaþings vestra. Í fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir að verðbólga verði 3,4% og að fjármagnskostnaður sveitarfélagsins verði 51,4 milljónir. Ársverðbólga var nú í októbermánuði 4,3%, en héldist hún óbreytt út árið 2026 yrði fjármagnskostnaður 10 milljónum hærri. Viðbrögð sveitarstjórnar við þessu óhagstæða fjármálaumhverfi hefur sem fyrr verið að draga úr lántökum, en ekki hefur verið tekið lán hjá sveitarfélaginu síðan árið 2022. Þá var í boði að taka verðtryggð lán með 3% vöxtum hjá Lánasjóði sveitarfélaga, en lánakjör sambærilegra lána eru nú 4%. Í fjárhagsáætlun ársins 2025 er lánsheimild fyrir 150 milljónum, en stefnt er að því að nýta heimildina ekki líkt og fyrri ár.

Sveitarstjórn fagnar því að nú er loks búið að gera langtímakjarasamninga við alla starfsmenn sveitarfélagsins. Þó er óvissa um virðismatsvegferð KÍ á haustmánuðum 2026 og ef ekki næst sátt um hana gætu samningar losnað 1. mars 2027. Auk þess er ákveðin óvissa um hvað verður um framlög frá Jöfnunarsjóði en fjármálaráðuneytið hefur nú lækkað útsvarsspá sveitarfélaga í 5,3% en var fyrr í haust áætluð 5,8% frá árinu 2025. Ræður þar mestu bilun álvers Norðuráls á Grundartanga, gjaldþrot Play og minni aflaheimildir í uppsjávarveiði. Lækkun útsvarstekna lækkar framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Með lækkandi fjármagnskostnaði var nú árið 2025 bætt mjög í langvarandi innviðaskuld, m.a. í viðhald gatna og gangstétta og viðhaldi á veitum sveitarfélagsins. Áfram verður haldið á þeirri vegferð árið 2026. Þannig er viðhaldskostnaður sveitarfélagsins áætlaður 174,6 milljónir þar sem áfram er gert ráð fyrir endurbótum á veitum sveitarfélagsins, malbiksframkvæmdum og lagfæringum á gangstéttum. Eignfærð fjárfesting er áætluð 360,5 milljónir, þar sem verður m.a. ráðist í frágang á skólalóð, haldið áfram við endurbætur á Félagsheimilinu Hvammstanga og aðstöðuhúsið í Kirkjuhvammi verður klárað. Jafnframt verður haldið áfram endurnýjun dreifikerfis hitaveitunnar á Hvammstanga og hafin vinna við nauðsynlegar endurbætur á fráveitu í samræmi við auknar kröfur hins opinbera.

Útsvarsprósenta ársins 2026 verður óbreytt frá núlíðandi ári, eða 14,97%. Verkefni sveitarstjórnar mun áfram verða finna leiðir til eflingar atvinnulífs svo útsvarstekjur ársins hækki, en Húnaþing vestra heldur áfram að raða sér í neðstu sæti þeirra sveitarfélaga sem lægst útsvar hafa pr. íbúa. Hækkun útsvarstekna frá árinu 2025 er áætluð 3,9% sem er lægra en meðaltalshækkun á landinu öllu. Það er því afar ánægjulegt að sjá að útlitið í atvinnumálum er bjartara nú en oft áður með uppbyggingu í ferðaþjónustu, tilraunir með þaragarða, áform um skógarplöntuverksmiðju og fleira. Vonir standa til að þessi verkefni leiði til fjölgunar starfa og þar með hækkunar útsvarstekna. Undirbúningur þessara verkefna af hálfu sveitarstjórnar hefur meðal annars falist í húsnæðisuppbyggingu sem hefur ekki verið meiri um langa hríð. Inniðviðir til fjölgunar íbúa eru því til staðar þegar að því kemur að tækifærin sem nefnd voru raungerast.

Álagning fasteignaskatts íbúðarhúsnæði lækkar frá árinu 2025 og fer niður í 0,45% árið 2026. Gjaldskrá atvinnuhúsnæðis (C-hluta) fer hins vegar í 1,42% í stað þess að vera 1,32% en um langt árabil hefur álagning atvinnuhúsnæðis verið mun lægri en í þeim sveitarfélögum sem við berum okkur saman við. Hækkun tekna vegna fasteignaskatts er áætluð 11,3%. Tekjuviðmið reglna um afslátt af tekjuskatti til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega voru hækkuð umfram hækkun launavísitölu fyrir árið 2024 sem og hámarksafslátturinn um 15%. Sorphirðugjöld íbúðarhúsnæðis þar sem er föst búseta verður óbreytt á milli ára, fjórða árið í röð.

Fráveitugjald lækkar í 0,20% (var 0,21%) og vatnsgjald lækkar í 0,25% (var 0,27%).

Almennar gjaldskrárhækkanir eru 3,2% sem er með því lægsta sem gerist á landinu. Vert er að taka fram að ákveðnir liðir gjaldskrár íþróttamiðstöðvar eru óbreyttir á milli ára, má þar nefna árskort sem er í anda áherslu á heilsueflandi samfélag.

Samkvæmt þeirri áætlun sem hér er lögð fram er rekstrarafkoma sveitarsjóðs Húnaþings vestra og undirfyrirtækja áætluð jákvæð um 1,4 milljónir fyrir árið 2026.

Sveitarstjórn heldur áfram að styðja myndarlega við íþrótta- og tómstundastarf barna. Er það gert með því að greiða fjárframlag til USVH sem útdeilir því til íþróttafélaganna. Hefur íþróttafélögum á svæðinu vegna þessa tekist að hafa þátttökugjöldin afar lág sem leiðir til þess að kostnaður foreldra vegna íþróttaiðkunar er með því lægsta sem gerist á landinu. Fjárhæð frístundastyrks verður áfram kr. 25.000 árið 2026 og nær til barna frá fæðingu og til átjánda aldursárs. Íþróttafélögin munu áfram njóta gjaldfrjálsra afnota af íþróttamannvirkjum fyrir íþróttastörf barna. Jafnframt verða áfram greiddir akstursstyrkir til foreldra barna í dreifbýli sem þurfa að keyra börn sín sérstaklega til og frá æfingum.

Sveitarfélagið styður einnig við félagsstarf eldri borgara með gjaldfrjálsri notkun á húsnæði í samfélagsmiðstöðinni í Félagsheimilinu Hvammstanga.

Húnaþing vestra veitir hinum ýmsu félagasamtökum og menningarverkefnum styrki á árinu 2026, samtals 30,79 milljónir. Þeir sem hljóta m.a. styrk er Félag eldri borgara, Verslunarminjasafnið, Eldur í Húnaþingi, Handbendi brúðuleikhús, USVH bæði í formi fjárstyrks og reiknaðra afnota af íþróttamannvirkjum, Húnaklúbburinn og Björgunarsveitin Húnar. Auk þess er fjármagn sett í styrkvega-, rétta- og heiðagirðingapott sem landbúnaðarráð úthlutar til fjallskiladeilda.

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins tekur um 4 mánuði í vinnslu. Á upphafsmetrunum eru settar fram helstu forsendur og áskoranir sem forstöðumenn eru beðnir um að taka tillit til við gerð sinna starfsáætlana. Fjölmargir fundir eru haldnir, þar sem stjórnendur hafa allir sem einn séð stóru myndina og lagt hönd á plóg til að ná að skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Eru þeim færðar hinar bestu þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag í fjárhagsáætlunarvinnunni. Verkefnið er ekki alltaf auðvelt en rekstrarlegar áskoranir eru oft tíðum miklar, oftar en ekki vegna ákvarðana ríkisvaldsins. Ríkisvaldið færir verkefni yfir til sveitarfélaga og/eða gerir auknar kröfur til þeirra, án þess að fjármagn hafi fylgt með. Í því samhengi er meðal annars hægt að nefna málefni fatlaðs fólks, lög um farsæld barna og merkjalýsingar eigna svo fátt eitt sé talið.

Þrátt fyrir að fjárhagsáætlun A- og B- hluta sveitarsjóðs sé skilað með hagnaði fyrir árið 2026 og næstu 3 ár á eftir er ljóst að ekki má mikið út af bregða í rekstrinum. Lækkaðar álögur án þess að gera breytingar á þjónustustigi eru ekki sjálfsagðar og kalla á aukið aðhald í rekstri svo hann uppfylli þær kröfur sem Eftirlitsnefnd sveitafélaga gerir. Aðalsmerki sveitarfélagsins hefur verið hátt þjónustustig og mikill vilji til að svo verði áfram en mikil og góð þjónusta er kostnaðarsöm. Einnig hefur verið lögð áhersla á að ganga á innviðaskuld sveitarfélagsins með auknum framkvæmdum sem felur í sér áskoranir, ekki aðeins fjárhagslegar heldur líka framkvæmdalegar, þar sem á tímum hefur verið erfitt að fá verktaka til að vinna verkin. Ytri aðstæður, eins og verðbólga og fjármagskostnaður gera rekstrarumhverfið svo enn óstöðugra eins og fram hefur komið. Það verður því verkefni sveitarstjórnar áfram að hafa vökult auga með rekstrinum til að tryggja stöðugleika eins og hægt er.

Sveitarstjórn ítrekar þakkir til stjórnenda fyrir sína miklu vinnu við gerð fjárhagsáætlunar sem og í rekstri sveitarfélagsins.

Starfshópur um opnunartíma leikskóla og grunnskóla. - 4. fundur - 25.11.2025

Lagt fram minnisblað um breytingar á gjaldskrá leikskólans og opnunartíma.
Starfshópurinn er samþykkur hugmyndum sem koma fram í minnisblaðinu en leggur til nokkur atriði sem vert er að hafa til hliðsjónar við útfærslu. Sviðsstjóra falið að koma þeim atriðum á framfæri við byggðarráð.

Landbúnaðarráð - 222. fundur - 03.12.2025

Sveitarstjóri fór yfir fjárhagsramma ráðsins fyrir árið 2026.
Var efnið á síðunni hjálplegt?