Ársreikningur Húnaþings vestra 2024

Málsnúmer 2504010

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1242. fundur - 07.04.2025

Lögð fram drög að ársreikningi sveitarsjóðs Húnaþings vestra og undirfyrirtækja fyrir árið 2024.
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, fór yfir drög að ársreikningi sveitarsjóðs Húnaþings vestra og undirfyrirtækja fyrir árið 2024. Byggðarráð samþykkir ársreikninginn og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn - 390. fundur - 10.04.2025

Kristján Jónasson kom til fundar kl. 15:01.
Ársreikningur sveitarsjóðs Húnaþings vestra og undirfyrirtækja fyrir árið 2024 lagður fram til fyrri umræðu sveitarstjórnar ásamt sundurliðunarbók og skýrslu um stjórnsýsluskoðun.
Kristján Jónasson endurskoðandi KPMG mætti til fundar við sveitarstjórn. Kristján lagði fram og skýrði ársreikning fyrir árið 2024. Kristján svaraði í framhaldinu fyrirspurnum sveitarstjórnarmanna.

Í framhaldinu lagði oddviti fram eftirfarandi tillögu:
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir að vísa ársreikningi sveitarsjóðs Húnaþings vestra og undirfyrirtækja fyrir árið 2024 til síðari umræðu.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Kristján vék af fundi kl. 16:11.

Sveitarstjórn - 391. fundur - 08.05.2025

Ársreikningur Húnaþings vestra lagður fram til seinni umræðu ásamt endurskoðunarskýrslu KPMG. Reikningurinn er settur fram samkvæmt lögum um reikningsskil sveitarfélaga. Ársreikningurinn samanstendur annars vegar af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og hins vegar um A- og B-hluta samantekinn. Til A-hluta telst sú starfsemi sveitarfélagsins sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum, þ.e. aðalsjóður, eignasjóður og þjónustumiðstöð sveitarfélagsins (áhaldahús). Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, þ.e. Fráveita, Vatnsveita, Hitaveita, Hafnarsjóður, Félagslegar íbúðir og Reykjaeignir ehf.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir framlagðan ársreikning sveitarsjóðs Húnaþings vestra og undirfyrirtækja fyrir árið 2024.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Greinargerð:

Samstæða Húnaþings vestra, þ.e. Aðalsjóður, Eignasjóður, Hafnarsjóður, Vatnsveita, Hitaveita, Félagslegar íbúðir, Fráveita og Reykjaeignir var rekin með 265 milljóna afgangi sem er 262 milljónum betri afkoma en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir. Söluhagnaður ársins er 96 milljónir, þar af 88 milljónir vegna yfirtöku Bríetar leigufélags á íbúðum við Gilsbakka á Laugarbakka gegn kaupum á eignarhluta í leigufélaginu. Meginskýringar aðrar á bættri afkomu eru áhrif lækkandi verðbólgu á fjármagnsgjöld, hærra útsvar en gert hafði verið ráð fyrir, auknar þjónustutekjur en ekki síst ráðdeild forstöðumanna í rekstri en nær allar deildir aðalsjóðs eru reknar undir áætlun. Vill sveitarstjórn færa forstöðumönnum og starfsmönnum sveitarfélagsins þakkir fyrir sinn mikilvæga hlut í þessari góðu niðurstöðu.

Samtals voru rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2024, 2.493 milljónir sem eru 220 milljónum hærri tekjur en gert hafði verið ráð fyrir og 240 milljónum hærri en á árinu 2023.

Annar rekstrarkostnaður var 39,8% í hlutfalli af rekstrartekjum, en áætlun gerði ráð fyrir að hlutfallið yrði 44,4%. Á milli áranna 2022 og 2023 hækkaði rekstrarkostnaður um 152 milljónir en á milli áranna 2023 og 2024 hækkaði hann um 27 milljónir.

Samkvæmt yfirliti yfir sjóðsstreymi nam veltufé frá rekstri samstæðunnar tæpum 339 milljónum eða 11,5% sem er 203 milljónum og 9,3% hærra en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Á árinu 2023 nam veltufé frá rekstri 211 milljónum sem var 7,4%. Veltufé frá rekstri er kennitala sem segir til um hverju reksturinn skilar til niðurgreiðslu skulda eða fjárfestinga þegar búið er að standa straum af nauðsynlegum rekstri.

Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum á árinu nam samtals tæpum 56 milljónum. Fjárfest var í slökkvibifreiðum, fasteignum, skóla og frístundasvæði, hitaveitu og félagslegum íbúðum. Við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2024 tók sveitarstjórn ákvörðun um að draga úr framkvæmdum til að komast hjá lántökum sem í hárri verðbólgu eru afar óhagkvæmar. Afkoma sveitarfélagsins nú gefur til kynna að sú ákvörðun hafi verið skynsamleg enda var við gerð fjáhagsáætlunar fyrir árið 2025 blásið verulega í framkvæmdir og gert ráð fyrir að framkvæmt verði fyrir um 250 milljónir á yfirstandandi ári.

Afborgun langtímalána á árinu 2024 nam 96 milljónum en engin ný lán voru tekin á árinu þó heimild hafi verið til 100 milljóna lántöku á fjárhagsáætlun ársins. Lánaheimildir hafa ekki verið nýttar frá árinu 2022 þegar tekið var 45 milljóna lán þegar lánaheimild fjárhagsáætlunar var 145 milljónir. Lítil lántaka undanfarin ár hefur skipt sköpum í erfiðu vaxtaumhverfi og er nú að skapa svigrúm til aukinna framkvæmda. Á árinu 2025 er lánaheimild upp á 150 milljónir en sú heimild verður ekki nýtt nema brýna nauðsyn beri til.

Handbært fé í árslok var 501 milljón og óx um 270 milljónir á milli ára sem er afar ánægjulegt og gefur til kynna aukið svigrúm til fjárfestinga án lántöku. Rétt er að geta þess að 29 milljónir af handbæru fé í árslok 2024, kemur til vegna stöðu handbærs fjár SSNV sem kemur inn í ársreikning Húnaþings vestra sem samstarfsverkefni.

Heildarlaunagreiðslur með launatengdum gjöldum en án lífeyrisskuldbindinga hjá samstæðunni voru 1.076 milljónir. Laun og launatengd gjöld hjá samstæðunni í hlutfalli af rekstrartekjum voru 43,2% þegar áætlun gerði ráð fyrir 47,8%. Fjöldi starfsmanna í árslok var 127 í 84 stöðugildum samanborið við 132 starfsmenn í 84 stöðugildum á árinu 2023. Lífeyrisskuldbinding sveitarfélagsins hækkaði um 38 milljónir á milli ára en gert hafði verið ráð fyrir 22 milljóna hækkun.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir samstæðunnar bókfærðar á 3.577 milljónir en þar af voru veltufjármunir 760 milljónir.

Skuldir samstæðunnar með lífeyrisskuldbindingum námu samkvæmt efnahagsreikningi 1.569 milljónum en þar af voru skammtímaskuldir 378 milljónir. Skuldahlutfall samstæðunnar þ.e. heildarskuldir og skuldbindingar A- og B- hluta sem hlutfall af tekjum var um áramót 63%. Skuldahlutfallið var 68% árið 2023 en 84% árið 2022, en samkvæmt fjármálareglum sveitarfélaga má það hæst vera 150%. Skuldaviðmið samstæðunnar í árslok (skuldahlutfall að frádregnum leiguskuldbindingum við ríkissjóð, lífeyrisskuldbindingum og hreinu veltufé) nam 28% samkvæmt reglum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en var 40% á árinu 2023 og 50% á árinu 2022.

Veltufjárhlutfall A- og B-hluta var 2,01 í árslok 2024 en var 1,59 árið áður. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 2.008 milljónum samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A- og B- hluta eða 64%, en eigið fé A-hluta nam 2.172 milljónum eða 56,1% sem gefur til kynna styrkan rekstur.

Eins og fjallað hefur verið um við afgreiðslu ársreikninga síðustu ára voru fjármálareglur sveitarfélaga tímabundið felldar úr gildi vegna áhrifa heimsfaraldurs á fjármál þeirra. Fjármálareglurnar taka annars vegar til jafnvægisreglu sem segir að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Hins vegar er um að ræða skuldareglu, þ.e. að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Fjármálareglurnar taka gildi að nýju árið 2026. Jafnvægisreglan vegna fjárhagsáætlunar ársins 2026 mun taka til rekstrarniðurstöðu áranna 2024, 2025 og áætlunar 2026. Góð niðurstaða ársreikningsins sem hér er lagður fram gefur til kynna að svigrúm muni vera til staðar við fjárhagsáætlunargerð ársins 2026 sem var það sem stefnt hefur verið að. Skuldareglan mun taka mið af skuldum og skuldbindingum í lok árs 2026, en Húnaþingi vestra hefur tekist að vera langt undir því viðmiði hin síðari ár.

Niðurstaða ársreiknings ársins 2024 er afar jákvæð og sýnir að aðgerðir þær sem gripið var til hafa borið árangur og gert það að verkum að rekstur sveitarfélagsins er kominn í gott jafnvægi eftir erfið ár í kjölfar heimsfaraldurs. Þennan góða árangur má að mestu leyti þakka skynsamri fjármálastjórn undanfarinna ára, lágmarks lántökum og almennri ráðdeild í rekstri.

Sveitarstjórn vill ítreka þakkir til forstöðumanna stofnana sveitarfélagsins fyrir aðgæslu í rekstri sinna eininga sem skýrir að nokkru leyti jafnvægi í rekstri sveitarfélagsins. Væntir sveitarstjórn áframhaldandi góðs samstarfs við forstöðumenn, sem hafa sýnt nauðsyn forgangsröðunar verkefna einstakan skilning.

Síðast en ekki síst vill sveitarstjórn koma á framfæri þökkum til íbúa sem hafa sýnt þolinmæði og skilning bæði hvað varðar takmarkaðar framkvæmdir og álögur undanfarin ár.

Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu:

„Í ljósi góðrar afkomu sveitarsjóðs og undirfyrirtækja er sveitarstjóra falið að gera tillögu að skilgreiningu verkefna til viðbótar við þau sem tilgreind eru á fjárhagsáætlun og sýnt er að hægt verði að ráðast í á árinu, fyrir allt að 20 milljónir. Skal tillagan lögð fyrir byggðarráð til umfjöllunar ásamt drögum að viðauka við fjárhagsáætlun þegar verkefnin liggja fyrir.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Var efnið á síðunni hjálplegt?