Byggðarráð

1242. fundur 07. apríl 2025 kl. 14:00 - 16:00 í Ráðhúsinu
Nefndarmenn
  • Magnús Magnússon formaður
  • Elín Lilja Gunnarsdóttir varaformaður
  • Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri
  • Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Styrktarsjóður EBÍ 2025

Málsnúmer 2504006Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélagi Íslands með kynningu á styrktarsjóði félagsins.
Sveitarstjóra er falið að senda inn umsókn fyrir hönd sveitarfélagsins.

2.Styrkir til leikfélaga 2025

Málsnúmer 2501010Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn um styrk til leikfélaga frá Handbendi brúðuleikhúsi.
Styrkir til leikfélaga árið 2025 voru auglýstir með umsóknarfresti til 1. apríl sl. Ein umsókn barst frá Handbendi brúðuleikhúsi. Byggðarráð samþykkir að styrkja Handbendi um kr. 300 þúsund til uppsetningar á sýningunni Karíus og Baktus í Húnaþingi vestra.

3.Viðauki 2 við fjárhagsáætlun 2025

Málsnúmer 2504008Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að Viðauka 2 við fjárhagsáætlun 2025.
Sveitarstjóri og sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs leggja fram eftirfarandi tillögu að viðauka nr. 2 við fjárhagsáætlun ársins 2025 að upphæð kr. 38.629.837:

„Eignasjóður
Stofnframlag Brák íbúðafélag vegna Norðurbrautar 15


kr. 36.079.837

Dæla á slökkvibifreið






kr. 2.550.000

Hækkun eignfærðrar fjárfestingar er mætt með lækkun handbærs fjár.

Stofnframlagið tengist íbúðauppbyggingu að Norðurbraut 15. Áður samþykkt á 384. fundi sveitarstjórnar sem fram fór þann 17. október 2024. Um er að ræða 75% framlags sveitarfélagsins. 25% framlagsins verður greitt við öryggisúttekt þegar húsið er risið sumarið 2026.

Í lok árs 2024 var samhliða kaupum á VW Amarok bifreið slökkviliðsins gert ráð fyrir kaupum á dælu. Ekki náðist að flytja dæluna inn fyrr en nú.

Ekki er lagt fyrir málaflokkayfirlit þar sem viðaukinn hefur ekki áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins 2025.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 3 atkvæðum.

Á móti fjárfestingu í stofnframlagi vegna íbúðabyggingar að Norðurbraut 15 verða innheimt opinber gjöld af byggingu hússins, t.a.m. gatnagerðar- og tengigjöld.

4.Ársreikningur Húnaþings vestra 2024

Málsnúmer 2504010Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að ársreikningi sveitarsjóðs Húnaþings vestra og undirfyrirtækja fyrir árið 2024.
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs, fór yfir drög að ársreikningi sveitarsjóðs Húnaþings vestra og undirfyrirtækja fyrir árið 2024. Byggðarráð samþykkir ársreikninginn og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

5.Aðalfundur Landskerfis bókasafna hf. 2025

Málsnúmer 2504015Vakta málsnúmer

Lagt fram boð á aðalfund Landskerfis bókasafna 2025 sem haldinn verður 6. maí nk.

6.Ósk um endurnýjun á lóðarumsókn - Kirkjuhvammsvegur 4

Málsnúmer 2504016Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Reimari Marteinssyni fyrir hönd Reykjahöfða ehf. um endurnýjun umsóknar um lóðina Kirkjuhvammsvegur 4, Hvammstanga.
Byggðarráð samþykkir úthlutun lóðarinnar Kirkjuhvammsvegar 4 til Reykjahöfða ehf. í samræmi við þá skilmála sem um lóðaúthlutanir hjá Húnaþingi vestra gilda.

7.Atvik í stóðsmölun í Víðidal 4. október 2024

Málsnúmer 2503054Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Sonju Líndal Þórisdóttur og Þóri Ísólfssyni.
Í erindinu er óskað eftir að sveitarfélagið greiði útlagðan efniskostnað sem hlaust af meðhöndlun hryssu sem slaðaðist í stóðsmölun. Fyrir liggur álit lögmanns. Samkvæmt því er ekki hægt að líta svo á að sveitarfélagið beri ábyrgð á tjóni á búpeningi við smalamennsku. Kröfunni er því hafnað.

8.Verndar- og orkunýtingaráætlun (bætt málsmeðferð og aukin skilvirkni) - mál til umsagnar - Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis

Málsnúmer 2504011Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Alþingi sem sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, 268. mál.
Til umsagnar er frumvarp um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlanir sem miðar að því að bæta málsmeðferð og auka skilvirkni. Staða raforkumála á Íslandi í dag er grafalvarleg og skert aðgengi að orku hefur bein áhrif á möguleika sveitarfélaga til eflingar atvinnulífs og þar með fjölgunar íbúa. Því er ljóst að leita þarf leiða til að stytta málsmeðferð og auka skilvirkni í ferlinu öllu. Byggðarráð sér ekki ástæðu til að gera athugasemdir við einstaka greinar frumvarpsins en vill koma á framfæri eftirfarandi áherslum:

1) Brýnt er að hafa í huga og taka fullt tillit til óskoraðs skipulagsvalds sveitarfélaga. Ekki verður á það fallist að á það verði gengið með nokkrum hætti. Breytingar á heimildum sveitarfélaga til frestunar ákvarðana um landnotkun sem fram eru settar í frumvarpinu vekja áhyggjur af því að á skipulagsvaldið sé gengið. Rammaáætlun er nú þegar inngrip inn í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga þar sem hún er bindandi við gerð skipulagsáætlana þeirra en þau hafa hins vegar ekki aðkomu að vinnslu Rammaáætlunar. Því má segja að við málsmeðferðina sé nú þegar skerðing á skipulagsvaldi og ekki verður unað við frekari skerðingar.
2) Byggðarráð leggur á það höfuð áherslu að samráð við sveitarfélög og nærsamfélagið hefjist mun fyrr í ferlinu við mat virkjanahugmynda en nú er. Það verður að teljast óeðlilegt að aðilar geti sett af stað vinnu í Rammaáætlun án nokkurs samtals við sveitarstjórnir sem fara með skipulagsvaldið. Um þetta eru fjölmörg dæmi, m.a. í Húnaþingi vestra varðandi virkjun vindorku.
3) Byggðarráð sér einnig ástæðu til þess að ítreka við þetta tækifæri mikilvægi þess að sveitarfélög njóti góðs af orkuframleiðslu í þeirra nærumhverfi og fái skýrar heimildir til að innheimta gjöld af orkumannvirkjum.

9.Ársreikningur Veiðifélags Arnarvatnsheiðar og Tvídægru 2024

10.Nýjar samþykktir fyrir Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands

11.Fulltrúaráðsfundur - Fundargerð - Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands

Málsnúmer 2504013Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands sem fram fór þann 19. mars sl.

12.Fundargerðir stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra 2025

Málsnúmer 2501012Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 122. fundar stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

13.Fundargerðir Hafnasambands Íslands 2025

Málsnúmer 2502006Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir 470. og 471. funda stjórnar Hafnasambands Íslands.

Fundi slitið - kl. 16:00.

Var efnið á síðunni hjálplegt?