Verndar- og orkunýtingaráætlun (bætt málsmeðferð og aukin skilvirkni) - mál til umsagnar - Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis

Málsnúmer 2504011

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1242. fundur - 07.04.2025

Lagt fram erindi frá Alþingi sem sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, 268. mál.
Til umsagnar er frumvarp um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlanir sem miðar að því að bæta málsmeðferð og auka skilvirkni. Staða raforkumála á Íslandi í dag er grafalvarleg og skert aðgengi að orku hefur bein áhrif á möguleika sveitarfélaga til eflingar atvinnulífs og þar með fjölgunar íbúa. Því er ljóst að leita þarf leiða til að stytta málsmeðferð og auka skilvirkni í ferlinu öllu. Byggðarráð sér ekki ástæðu til að gera athugasemdir við einstaka greinar frumvarpsins en vill koma á framfæri eftirfarandi áherslum:

1) Brýnt er að hafa í huga og taka fullt tillit til óskoraðs skipulagsvalds sveitarfélaga. Ekki verður á það fallist að á það verði gengið með nokkrum hætti. Breytingar á heimildum sveitarfélaga til frestunar ákvarðana um landnotkun sem fram eru settar í frumvarpinu vekja áhyggjur af því að á skipulagsvaldið sé gengið. Rammaáætlun er nú þegar inngrip inn í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga þar sem hún er bindandi við gerð skipulagsáætlana þeirra en þau hafa hins vegar ekki aðkomu að vinnslu Rammaáætlunar. Því má segja að við málsmeðferðina sé nú þegar skerðing á skipulagsvaldi og ekki verður unað við frekari skerðingar.
2) Byggðarráð leggur á það höfuð áherslu að samráð við sveitarfélög og nærsamfélagið hefjist mun fyrr í ferlinu við mat virkjanahugmynda en nú er. Það verður að teljast óeðlilegt að aðilar geti sett af stað vinnu í Rammaáætlun án nokkurs samtals við sveitarstjórnir sem fara með skipulagsvaldið. Um þetta eru fjölmörg dæmi, m.a. í Húnaþingi vestra varðandi virkjun vindorku.
3) Byggðarráð sér einnig ástæðu til þess að ítreka við þetta tækifæri mikilvægi þess að sveitarfélög njóti góðs af orkuframleiðslu í þeirra nærumhverfi og fái skýrar heimildir til að innheimta gjöld af orkumannvirkjum.
Var efnið á síðunni hjálplegt?