12. desember 2022

Vikan 5.-11. desember 2022

Einn ein vikan í baksýnisspeglinum. Hefðbundin vika – með eylitlum þeytingi innan svæðis og utan eins og gengur.

Mánudagurinn var nokkuð óhefðbundinn. Framkvæmdaráð fundaði ekki vegna leyfis eins ráðsmanns og byggðarráð fundaði ekki heldur þar sem fjöldi mála á dagskrá var það lítill að ekki þótti tilefni til að funda. Það gafst því kærkominn tími í verkefni við skrifborðið. En þó ekki alveg. Við fengum heimsókn á kaffistofuna en Ína Björk Ársælsdóttir leit við í kveðjukaffi en hún er að láta af störfum eftir rúmlega 15 ár í starfi hjá sveitarfélaginu. Það var gott að geta þakkað henni formlega fyrir sín góðu störf í gegnum árin. Eftir hádegið settist ég aðeins niður með Ragnari húsverði í Félagsheimilinu og við fórum yfir ýmis mál því tengd. Að öðru leyti sýslaði ég við undirbúning fundar landbúnaðarráðs, undirbúning sveitarstjórnarfundar, samþykkti reikninga, hringdi nokkur símtöl, lagðist yfir drög að samningi um málefni fatlaðs fólks milli sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra og margt fleira.

Á þriðjudagsmorgni hitti ég oddvita og formann byggðarráðs í bítið til að fara yfir ýmis mál. Vanalega fundum við á föstudögum en vegna fjarveru annars á föstudag fluttum við okkur um set. Að öðru leyti voru málefni fatlaðs fólks í forgrunni þennan daginn. Við hittumst sveitarstjórar í Skagafirði og á Skagaströnd á síðarnefnda staðnum og fórum yfir lokafrágang samnings um málaflokkinn. Engir voru ásteytingarsteinarnir í því samtali og samningurinn því tilbúinn til að leggja hann fyrir sveitarstjórnir. Það er virkilega ánægjulegt að vera búin að ljúka þessu verkefni og ég vænti góðs samstarfs við sveitarfélögin líkt og áður. Hitt er svo aftur annað að málaflokkurinn er vanfjármagnaður af hálfu ríkisins en vonir standa til að því verði mætt að einhverju leyti á næsta ári. Við höldum áfram að sækja það mál af krafti. Þriðjudagurinn var annars stuttur í annan endann því um hádegi skaust ég suður með Guðna minn til tannlæknis.

Miðvikudagurinn hófst á stjórnendafundi með stjórnendum stofnana sveitarfélagsins. Einvala lið sem hefur það sameiginlega markmið að efla samfélagið. Ég er þakklát fyrir þennan öfluga hóp. Að stjórnendafundi loknum hóf ég undirbúning fundargerðar landbúnaðarráðs sem var á dagskrá eftir hádegið og fundaði svo með formanni ráðsins til að fara yfir drögin. Sjálfur fundurinn var eftir hádegið. Má segja að þema fundarins hafi verið uppgjör því við fórum yfir uppgjör gæsa- og rjúpnaveiða í löndum sveitarfélagsins í ár, veiðieftirlit og búfjáreftirlit. Ráðið fór svo yfir drög að svari erindis vegna fjallskila og samþykkti þau. Fundargerðin er hér. Fyrir utan störf fyrir landbúnaðarráð sinnti ég ýmsum málum yfir daginn, beiðnum um fundi, yfirfór lokadrög að samningi við Samtökin ’78, safnaði upplýsingum vegna fyrirhugaðs útboðs á sorphirðu, garfaði aðeins í fjarskiptamálum, samþykkti reikninga og ýmislegt fleira.

Ef miðvikudagurinn var landbúnaðarráðsdagur þá var fimmtudagurinn sveitarstjórnardagur. Hann hófst þó á góðum fundi með starfsmönnum áhaldahúss og rekstrarstjóra þar sem við fórum yfir ýmis mál. Ég hrósaði þeim sérstaklega fyrir hversu snemma jólaskreytingarnar voru settar upp og sérstaklega fyrir jólatréð á vatnstanknum. Mér finnst jólaundirbúningurinn vart hafinn fyrr en að það hefur verið kveikt á því. Fram til hádegis sinnti ég svo ýmsum verkefnum, m.a. undirbúningi afhendinga jólagjafa starfsmanna sveitarfélagsins, hélt áfram að garfa í upplýsingum fyrir sorpútboðið og tók saman tölfræði yfir hlutföll í nefndum og ráðum sveitarfélagsins að beiðni Jafnréttisstofu. Heilt yfir þá er staðan í sveitarfélaginu nokkuð góð. 46% fulltrúa í nefndum og ráðum sveitarfélagsins eru konur og 54% karlar.  

Eftir hádegið var svo undirbúningsfundur fyrir sveitarstjórnarfundinn sem hófst kl. 15. Að fundi loknum sátum við nokkra stund og nutum góðra veitinga. Varaoddviti, Magnús Magnússon, stýrði fundi í fjarveru oddvita. Í tilefni stórafmælis síns daginn eftir bauð hann upp á glæsilegar veitingar sem við gæddum okkur á. Ég óska Magnúsi innilega til hamingju með afmælið. Á sveitarstjórnarfundinum var fjallað um fjölbreytt mál. Skipan í vatnasvæðanefnd, lóðaúthlutanir, samþykki á uppsetningum á frisbýkörfum á Bangsatúni , samþykki tveggja skipulagslýsinga, nýjar reglur um úthlutun byggingarlóða, samningurinn um málefni fatlaðs fólks svo fátt eitt sé talið. Skýrsla sveitarstjóra var á sínum stað en í henni fer ég yfir það sem helst hefur verið á dagskrá síðan á síðasta reglulega fundi sveitarstjórnar. Þá er nú gott að hafa dagbókarfærslurnar sér til stuðnings. Fundargerð fundarins er hér.

Á föstudeginum fór ég ásamt sviðsstjóra fjölskyldusviðs á fund á Sauðárkróki um samstarf um málefni barnavernda á Norðurlandi vestra og Tröllaskaga ef svo má segja þar sem Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð hafa líka tekið þátt í samtalinu um þetta mikilvæga verkefni. Ræddum við hvernig best mætti koma málaflokknum fyrir og fólum félagsmálastjórunum okkar að gera drög að samningi. Vonandi mun þessi vinna ganga hratt og vel. Eftir hádegið funduðum við svo með sveitarfélögum sem við ætlum að vera í samstarfi við um umdæmisráð barnaverndarnefnda sem verður einhversskonar úrskurðaraðili í málum sem ekki næst samkomulag um. Farið var yfir breytingar á samningsdrögum og fleira því tengt. Að öðru leyti fór föstudagurinnn í að tilkynna um afgreiðslur sveitarstjórnarfundarins. Það er oft svolítið verk og tekur stundum nokkra daga, sérstaklega ef upplýsingar vantar eða finna þarf til frekari gögn. Þetta er allt partur af starfinu og mikilvægt að vinna vel. Ég held áfram inn í næstu viku að ganga frá þessum útsendingum. Föstudagurinn var ekki bara afmælisdagur formanns byggðarráðs heldur líka pabba, Hilmars Hjartarsonar. Við kíktum í kaffi eftir kvöldmat til að óska afmælisbarninu til hamingju. Ég ætla að verða eins kraftmikil og pabbi þegar ég verð komin á hans aldur.

Ég tók daginn snemma á laugardeginum og kom í Ráðhúsið til að halda áfram að ganga á verkefnalistann og vinna úr sveitarstjórnarfundinum. Ég sat við eitthvað fram eftir degi og endaði á því að ljúka dagbókarfærslu vikunnar áður en ég fór heim og varði það sem eftir lifði helgar með fólkinu mínu. Jólagjafainnpökkun, tiltekt og samvera. Allt eins og það á að vera í aðdraganda jóla. Pössum að gleyma okkur ekki í jólastressinu. Hátíðarnar snúast um samveru með fólkinu okkar.

Ég tók óvenju lítið af myndum þessa vikuna og því er pistillinn myndasnauður. Tækifærin voru nú þó nokkur, fundir hingað og þangað, kveðjustundir, afmæli, heimabakað í tveimur tilfellum (vítavert að gleyma að mynda það) og margt fleira. Svona er þetta stundum. Geri betur næst. Get þó ekki stillt mig um að birta hér mynd af hurðum inn í skólastofur bekkjardeilda í Grunnskólanum. Sú hefð hefur skapast að nemendur skreyta hurðarnar á aðventunni. Þær eru alltaf ótrúlegar flottar hjá þeim. Myndin er fengin að láni úr föstudagsmola Grunnskólans sem sendur eru út vikulega til foreldra með fréttum af því sem efst er á baugi (og ég nota tækifærið hér til að hrósa sérstaklega fyrir sem foreldri barna í Grunnskólanum :)). Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs og rekstrarstjóri umhverfissviðs voru fengin í dómgæslu og var það 9. bekkur sem fékk viðurkenningu fyrir best skreyttu hurðina. Það hefur ekki verið auðvelt að velja get ég ímyndað mér því eins og sjá má er hver hurð annarri flottari. Skreyting 9. bekkjar er hnotubrjóturinn. Krakkarnir okkar aldeilis hugmyndarík eins og sjá má af myndinni :)

Var efnið á síðunni hjálplegt?