196. Fundur

196. Fundur landbúnaðarráðs Húnaþings vestra haldinn miðvikudaginn 7. desember 2022 kl. 13:00 Ráðhús.

Fundarmenn

Sigríður Ólafsdóttir formaður, Ingimar Sigurðsson varaformaður, Halldór Pálsson aðalmaður, Dagbjört Diljá Einþórsdóttir aðalmaður og Ármann Pétursson varamaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Unnur Valborg Hilmarsdóttir

Formaður setti fund.

Dagskrá:
1. Fjárhagsáætlun ársins 2023.
2. Skýrsla veiðivarðar vegna gæsa- og rjúpnaveiða 2022.
3. Skýrsla búfjáreftirlitsmanns 2022.
4. Uppgjör vegna gæsaveiða 2022.
5. Uppgjör vegna rjúpnaveiða 2022.
6. Uppgjör vegna styrkvega 2022.
7. Uppgjör vegna heiðagirðinga 2022.
8. Erindi vegna fjallskila á Vatnsnesi

Afgreiðslur:
Elín Jóna Rósinberg kom til fundar við ráðið.
1. Fjárhagsáætlun ársins 2023. Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fór yfir fjárhagsaáætlun ársins 2023 og fjárhagsramma ráðsins. Elínu Jónu er þökkuð greinargóð yfirferð.
Elín Jóna Rósinberg vék af fundi kl. 13:18.


Júlíus Guðni Antonsson kom til fundar við ráðið kl. 13:18.
2. Skýrsla veiðivarðar vegna gæsa- og rjúpnaveiða 2022. Júlíus Guðni Antonsson veiðivörður gerði grein fyrir störfum sínum. Farnar voru fjórar eftirlitsferðir á Víðidalstunguheiði og ein á Arnarvatnsheiði. Ekki þurfti að hafa afskipti af veiðimönnum í þessum ferðum. Loka þurfti veginum upp hjá Hrappsstöðum í Víðidal vegna aurbleytu fyrstu og aðra helgi rjúpnaveiðitímabilsins. Almennt virðist vera ánægja með fyrirkomulag veiðanna, stjórn og vöktun sveitarfélagsins á svæðinu.
Landbúnaðarráð þakkar Júlíusi Guðna fyrir greinargóða yfirferð.


3. Skýrsla búfjáreftirlitsmanns 2022. Júlíus Guðni Antonsson búfjáreftirlitsmaður gerði grein fyrir störfum sínum á árinu. Mat Júlíusar er að heilt yfir sé ástand gott við vegi en gerðar voru nokkrar úrbætur á þekktum stöðum á árinu. Flest útköll voru vegna sauðfjár, eða 29 talsins. Alls voru þrjú útköll vegna hrossa á vegi. Auk þess voru tvö útköll vegna graðhests sem var laus og eitt útkall til að lesa af óskilahrossi.
Landbúnaðarráð þakkar Júlíusi Guðna fyrir greinargóða yfirferð.
Júlíus Guðni Antonsson vék af fundi kl. 13:50.


4. Uppgjör vegna gæsaveiða 2022. Lagt fram uppgjör vegna gæsaveiða í löndum sveitarfélagsins á veiðitímabilinu haustið 2022. Formanni er falið að vinna drög að leiðbeiningum vegna sölu veiðileyfa í löndum sveitarfélagsins.


5. Uppgjör vegna rjúpnaveiða 2022. Lagt fram uppgjör vegna rjúpnaveiða í löndum sveitarfélagsins á nýafstöðnu veiðitímabili. Formanni er falið að vinna drög að leiðbeiningum vegna sölu veiðileyfa í löndum sveitarfélagsins.


6. Uppgjör vegna styrkvega 2022. Lagt fram til kynningar.


7. Uppgjör vegna heiðagirðinga 2022. Lagt fram til kynningar. Ekki hafa allir reikningar vegna vinnu við heiðagirðingar borist. Sveitarstjóra er falið að tilkynna fjallskiladeildum að reikningar sem berast eftir 15. desember nk. verða ekki greiddir.


8. Erindi vegna fjallskila á Vatnsnesi. Lögð fram fyrirspurn frá Hanný Norland vegna fyrirkomulags fjallskila á Vatnsnesi. Óskað er skýringa á fyrir hvað fjallskilagjald er innheimt. Einnig er óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til álits umboðsmanns Alþingis (mál nr. 11167/2021). Einnig lögð fram drög að svarbréfi þar sem fram kemur að fjallskil eru innheimt vegna smölunar ógirts heimalands á Vatnsnesi sem smalað er á félagslegum grundvelli með vísan til 12. gr. laga nr. 6/1986, óháð því hvort um hross eða sauðfé er að ræða. Fjallskilagjald er ekki greiðsla fyrir beit á afrétti eða öðrum svæðum sem falla undir fjallskilaframkvæmd skv. 12. gr. laganna né viðhalds mannvirkja. Álagning fjallskilagjalds byggir á álagningu á landverð, sbr. 42. gr. laga nr. 6/1986 og 9. gr. fjallskilasamþykktar. Vegna fyrirspurnar um afstöðu sveitarfélagsins til álits Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 11167/2021 er tekið fram að það álit varðar ekki málefni fjallskilagjalds. Álitið beindist að leiðbeiningum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins varðandi málefni tengd ágangi búfjár. Ætla má að álitið verði til þess að ráðuneytið endurskoði efni leiðbeininga sem það kann að setja fram. Álitið kallar ekki á sérstök viðbrögð af hálfu sveitarfélagsins, en gert er ráð fyrir að fylgst verði með því hvernig ráðuneytið bregst við álitinu.
Landbúnaðarráð samþykkir drög að svarbréfi og felur sveitarstjóra að senda það til fyrirspyrjanda.

Fundargerð upplesin, fundi slitið kl. 14:34.

Var efnið á síðunni hjálplegt?