Sveitarstjórn

395. fundur 23. október 2025 kl. 15:00 - 16:19 í Ráðhúsinu
Nefndarmenn
  • Þorleifur Karl Eggertsson oddviti
  • Magnús Magnússon varaoddviti
  • Sigríður Ólafsdóttir aðalmaður
  • Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður
  • Elín Lilja Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Ingimar Sigurðsson aðalmaður
  • Viktor Ingi Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Unnur Valborg Hilmarsdóttir
Dagskrá
Oddviti setti fund og óskaði eftir að taka á dagskrá sem 3. dagskrárlið tillögur sameiginlegrar kjörstjórnar Dalabyggðar og Húnaþings vestra og 4. dagskrárlið fyrirhugaðar breytingar á tollflokkun fjór- og sexhjóla. Samþykkt samhljóða.

1.Formlegar sameiningarviðræður Húnaþings vestra og Dalabyggðar

Málsnúmer 2509024Vakta málsnúmer

Lagt fram skilabréf samstarfsnefndar um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra dags. 21. október 2025 ásamt fylgiskjölum. Skv. 2. mg. 119. gr. sveitarstjórnarlaga skal sveitarstjórn taka málið á dagskrá án atkvæðagreiðslu.
Í skilabréfinu kemur fram að samstarfsnefndin kom saman á sjö bókuðum fundum. Samstarfsnefnd skipaði starfshópa sem fjölluðu um málaflokka sveitarfélaganna og lögðu fram efni og upplýsingar í greiningu og tillögugerð, auk þess sem samstarfsnefnd hefur haldið tvo íbúafundi í hvoru sveitarfélagi til að eiga samráð við íbúa og kynna stöðu viðræðna.

Álit samstarfsnefndar er svohljóðandi:
„Dalabyggð og Húnaþing vestra eru lík að landkostum, íbúasamsetningu, búsetumynstri og atvinnulífi. Við sameiningu sveitarfélaganna yrði að mati nefndarinnar til öflugra sveitarfélag með sterkari stjórnsýslu, faglegri þjónustu og meiri slagkraft í hagsmunagæslu til að byggja upp innviði og auka fjölbreytni í atvinnulífi eins og sjá má í greiningargögnum samstarfsnefndar. Nefndin telur að sameining myndi stuðla að aukinni byggðafestu og auka aðdráttarafl fyrir nýja íbúa og starfsmenn. Helstu áskoranir sameinaðs sveitarfélags væru að tryggja jafnt þjónustustig, viðhalda staðbundnum sérkennum og tryggja að íbúar upplifi áfram nálægð og öryggi í þjónustu. Nefndin telur að mæta megi þeim áskorunum og leggur áherslu á að t.a.m. verði Húnvetningar áfram Húnvetningar og Dalamenn áfram Dalamenn þótt stjórnsýslueiningarnar tvær sameinist.

Fjárhagur sameinaðs sveitarfélags yrði sterkur og fjárfestingargeta þess betri en hjá sveitarfélögunum hvoru um sig. Sérstök sameiningarframlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu árum myndu auka svigrúm til fjárfestinga í sameinuðu sveitarfélagi, minnka þörf á lántöku og lækka fjármagnskostnað. Jafnframt hefur verið kynnt að reglubundin framlög Jöfnunarsjóðs munu hækka í sameinuðu sveitarfélagi ef af verður.

Það er samdóma álit samstarfsnefndar um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra að sameining væri framfaraskref fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra.“

Sveitarstjórn þakkar samstarfsnefnd fyrir vel unnin störf og felur henni að sjá um kynningu sameiningartillögunnar skv. 4. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Sveitarstjórn hvetur íbúa til að kynna sér málið og taka þátt í kosningunum sem fram fara 28. nóvember til 13. desember nk.

2.Lok lóðarleigusamnings vegna Norðurbrautar 32

Málsnúmer 2212016Vakta málsnúmer

Staðfesting á afgreiðslu byggðarráðs frá 1259. fundi þann 20. október sl.
Lagt fram tilboð eiganda húseignar að Norðurbraut 32 vegna loka lóðarleigusamnings.
Hljóðar tilboðið upp á kr. 83.326.464 sem er miðgildi síðustu tilboða Húnaþings vestra og eiganda eignarinnar.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn samþykkir framlagt tilboð, dags. 14. október 2025, með þeim skilyrðum að uppgjör fari fram í einu lagi og að eigandi afhendi húsnæðið og alla lóðina sem hann hefur haft til umráða eigi síðar en 2. febrúar 2026. Sveitarfélagið eignast húsið og allt annað sem á lóðinni stendur á afhendingardegi. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að ganga frá samningi í samræmi við framangreint í samvinnu við lögmenn sveitarfélagsins.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum. Magnús Vignir Eðvaldsson og Viktor Ingi Jónsson sátu hjá við afgreiðslu málsins.



3.Tillögur sameiginlegrar kjörstjórnar Dalabyggðar og Húnaþings vestra.

Málsnúmer 2509024Vakta málsnúmer

Lagðar fram tillögur sameiginlegrar kjörstjórnar Dalabyggðar og Húnaþings vestra vegna framkvæmdar sameiningakosninga.
Sameiginleg kjörstjórn leggur til við sveitarstjórn að framkvæmd kosningar um sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar verði með eftirfarandi hætti:
1.
Kjörfundur frá 28. nóvember til og með 12. desember verði framkvæmdur eins og um póstkosningu væri að ræða. Kjósendur sem mæta á kjörstaði setji atkvæði í lokuð umslög og fylgiseðil í atkvæðakassa. Það er mat kjörstjórnar að þessi aðferð tryggi rekjanleika, öryggi atkvæða og styrki framkvæmd kosningarinnar.
2.
Að íbúar geti kosið oftar en einu sinni og nýjasta atkvæði gildi, með sama hætti og lög segja til um utankjörfundaratkvæðagreiðslur.
3.
Að sveitarstjórn veiti byggðarráði fullnaðarheimild til að taka ákvarðanir sem varða framkvæmd kosningarinnar til sameiningar sveitarfélaganna.
4.
Kjörseðlar. Sameiginleg kjörstjórn leggur til tvo kjörseðla til nota við kosninguna. Óskar kjörstjórn staðfestingar sveitastjórna á kjörseðlunum og í kjölfarið mun kjörstjórn senda þá til staðfestingar hjá innviðaráðuneyti.

Ofangreind atriði eru ítarlegri kröfur til kosningarinnar en þær lágmarkskröfur sem tilgreindar eru í reglugerð 922/2023. Kjörstjórn telur þau afar mikilvæg til að tryggja örugga, skilvirka og gagnsæja framkvæmd.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir, með fyrirvara um álit innviðaráðuneytis, tillögur sameiginlegrar kjörstjórnar um að kjörfundur í kosningu um sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar frá 28. nóvember til og með 12. desember verði framkvæmdur eins og um póstkosningu væri að ræða. Kjósendur sem mæta á kjörstaði setji atkvæði í lokuð umslög og fylgiseðil í atkvæðakassa.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir tillögur sameiginlegrar kjörstjórnar um að íbúar geti kosið oftar en einu sinni í kosningu um sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar og nýjasta atkvæði gildi, með sama hætti og lög segja til um utankjörfundaratkvæðagreiðslur með fyrirvara um álit innviðaráðuneytis.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn veitir byggðarráði fullnaðarheimild til að taka ákvarðanir sem varða framkvæmd kosningar um sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Sveitarstjórn samþykkir tillögu sameiginlegrar kjörstjórnar um tvo kjörseðla til að nota við kosningu um sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar og felur kjörstjórn að senda seðlana til staðfestingar hjá innviðaráðuneyti.“
Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

4.Fyrirhugaðar breytingar á tollflokkun fjór- og sexhjóla.

Málsnúmer 2510048Vakta málsnúmer

Umsögn um frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2026
Til umfjöllunar er fyrirhuguð breyting á tollflokkun fjór- og sexhjóla sem að mati sveitarstjórnar mun hafa veruleg áhrif á bændur.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Vísað er til minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dagsett 17.10.2025, málsnúmer FJR25060076.

Samkvæmt lið 4.1 í minnisblaðinu er áformað að gera töluverðar breytingar á tollflokkun fjór- og sexhjóla sem hafa verið flokkuð í tollflokk með dráttarvélum í tollflokki T3 og þannig undanskilin vörugjöldum hingað til. Verði þessi breyting á tollflokkun að lögum leggjast allt að 40% vörugjöld á innflutningsverð umræddra tækja. Þar sem tæki þessi eru að nánast öllu leyti nýtt í landbúnaði telur sveitarstjórn óeðlilegt að þau færist undir vörugjöld tækja sem nýtt eru til farþegaflutninga, eins og fyrirhugað er samkvæmt minnisblaðinu.

Þessi breyting gæti þýtt að fjór- og sexhjól, sem sannarlega eru nýtt til landbúnaðar, hækki um allt að eina milljón króna. Ef aðeins er miðað við eitt hjól á fjárbýli í sveitarfélaginu, sem eru um 80 talsins, gæti þetta þýtt skattahækkun allt að 80 milljónir króna á næstu árum eftir því sem hjólin eru endurnýjuð, í Húnaþingi vestra einu. Er því ljóst að þessi aukna skattlagning hleypur á hundruðum milljóna á landinu öllu.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra gerir alvarlega athugasemd við að hafa ekki fengið málið til umsagnar heldur einungis frétt af svo mikilli skattahækkun fyrir tilviljun. Eðlilegt væri að þau sveitarfélög sem eiga mikið undir að landbúnaður dafni hefðu fengið málið til umsagnar.

Hér með er skorað á fjármálaráðherra að falla frá fyrirhugaðri breytingu.

Sveitarstjóra er falið að senda framangreinda bókun á efnahags- og viðskiptanefnd, fjármálaráðherra, atvinnuvegaráðherra og þingmenn kjördæmisins.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.

Fundi slitið - kl. 16:19.

Var efnið á síðunni hjálplegt?