Fyrirhugaðar breytingar á tollflokkun fjór- og sexhjóla.

Málsnúmer 2510048

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn - 395. fundur - 23.10.2025

Umsögn um frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2026
Til umfjöllunar er fyrirhuguð breyting á tollflokkun fjór- og sexhjóla sem að mati sveitarstjórnar mun hafa veruleg áhrif á bændur.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

„Vísað er til minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dagsett 17.10.2025, málsnúmer FJR25060076.

Samkvæmt lið 4.1 í minnisblaðinu er áformað að gera töluverðar breytingar á tollflokkun fjór- og sexhjóla sem hafa verið flokkuð í tollflokk með dráttarvélum í tollflokki T3 og þannig undanskilin vörugjöldum hingað til. Verði þessi breyting á tollflokkun að lögum leggjast allt að 40% vörugjöld á innflutningsverð umræddra tækja. Þar sem tæki þessi eru að nánast öllu leyti nýtt í landbúnaði telur sveitarstjórn óeðlilegt að þau færist undir vörugjöld tækja sem nýtt eru til farþegaflutninga, eins og fyrirhugað er samkvæmt minnisblaðinu.

Þessi breyting gæti þýtt að fjór- og sexhjól, sem sannarlega eru nýtt til landbúnaðar, hækki um allt að eina milljón króna. Ef aðeins er miðað við eitt hjól á fjárbýli í sveitarfélaginu, sem eru um 80 talsins, gæti þetta þýtt skattahækkun allt að 80 milljónir króna á næstu árum eftir því sem hjólin eru endurnýjuð, í Húnaþingi vestra einu. Er því ljóst að þessi aukna skattlagning hleypur á hundruðum milljóna á landinu öllu.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra gerir alvarlega athugasemd við að hafa ekki fengið málið til umsagnar heldur einungis frétt af svo mikilli skattahækkun fyrir tilviljun. Eðlilegt væri að þau sveitarfélög sem eiga mikið undir að landbúnaður dafni hefðu fengið málið til umsagnar.

Hér með er skorað á fjármálaráðherra að falla frá fyrirhugaðri breytingu.

Sveitarstjóra er falið að senda framangreinda bókun á efnahags- og viðskiptanefnd, fjármálaráðherra, atvinnuvegaráðherra og þingmenn kjördæmisins.“

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Var efnið á síðunni hjálplegt?