Byggðarráð

1268. fundur 26. janúar 2026 kl. 14:00 - 15:10 í Ráðhúsinu
Nefndarmenn
  • Magnús Magnússon formaður
  • Elín Lilja Gunnarsdóttir varaformaður
  • Magnús Vignir Eðvaldsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri
  • Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg
Dagskrá

1.Leiguverð íbúða í eigu Húnaþings vestra

Málsnúmer 2601029Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað sveitarstjóra um leiguverð íbúða í eigu Húnaþings vestra.
Í minnisblaðinu kemur fram greining á fermetraverði leiguíbúða í eigu sveitarfélagsins samanborið við nærliggjandi sveitarfélög og meðalfermetraverð samkvæmt skráðum húsaleigusamningum hjá HMS. Meðalfermetraverð leiguíbúða í eigu Húnaþings vestra er nokkru lægra en hjá þeim sveitarfélögum sem skoðuð voru. Byggðaráð felur sveitarstjóra að gera tillögu að útfærslu á hækkunum á leiguverði íbúða í eigu sveitarfélagsins og leggja fyrir ráðið.

2.Atvinnu- og nýsköpunarsjóður Húnaþings vestra, úthlutunarreglur og úthlutun 2026

Málsnúmer 2511060Vakta málsnúmer

Lagðar fram umsóknir í Atvinnu- og nýsköpunarsjóð Húnaþings vestra.
Úthlutun úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra árið 2026 var auglýst með umsóknarfresti til 10. janúar. 2 umsóknir bárust. Alls var sótt um kr. 3.000.000. Til úthlutunar eru kr. 2.500.000. Að loknu mati á umsóknum samþykkir byggðarráð að veita eftirtöldum verkefnum styrk:

Framhugsun ehf, vegna verkefnisins Rabarbaron - efling framleiðslu og úrvinnsla afurða, kr. 2.000.000.-
Selasetur Íslands, vegna verkefnisins Markaðssókn Selasetursins vegna selaskoðunar í sýndarveruleika, kr. 500.000.-

Sveitarstjóra er falið að ganga frá samningum við styrkhafa.

3.Umsókn um afslátt af leigu á Félagsheimilinu Hvammstanga

Málsnúmer 2511052Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn frá félagi eldri borgara í Húnaþingi vestra um afslátt af leigu vegna þorrablóts.
Vegna rangrar skráningar í málakerfi var málið ekki tekið fyrir áður en viðburður fór fram eins og áskilið er í reglum um veitingu afsláttar en umsókn barst í nóvember 2025. Beðist er velvirðingar á því. Byggðarráð samþykkir veitingu afsláttar vegna viðburða í samfélagsþágu.

4.Ungmennaráð

Málsnúmer 2601022Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað sviðsstjóra fjölskyldusviðs vegna skipunar ungmennaráðs.
Sveitarstjóra er falið að kalla eftir tilnefningum í ungmennaráð.

5.Drög að frumvarpi til laga um lagareldi

Málsnúmer 2601062Vakta málsnúmer

Lögð fram drög Atvinnuvegaráðuneytis að frumvarpi til laga um lagareldi sem eru kynnt til samráðs á Samráðsgátt stjórnvalda.
Byggðarráð Húnaþings vestra lýsir yfir áhyggjum sínum af áhrifum framlagðra frumvarpsdraga og leggur fram eftirfarandi tillögur sem eru til þess fallnar að vernda náttúru og þar með talið íslenska laxastofninn:
1.
Stækkun opins sjókvíaeldis á frjóum laxi verði stöðvuð og skýr, tímasett áætlun um tækniskipti sett fram.
Byggðarráð leggst gegn því að heimiluð verði frekari aukning á opnu sjókvíaeldi á frjóum laxi. Ráðið leggur áherslu á að sett verði skýr, tímasett áætlun um að sjókvíaeldi færist yfir í lokuð kerfi og fiskur í sjókvíum verði ófrjór. Frumvarpið gerir slíkt einungis að reglugerðarheimild ráðherra, en ekki skýru lagaákvæði. Sömuleiðis er áréttað að markmiðsgrein frumvarpsins verði aðlöguð þannig að hún samræmist því sem er að finna í núverandi löggjöf um að hagsmunir eldisfyrirtækja megi ekki vera teknir fram yfir hagsmuni náttúrunnar.
2.
Áhættumat erfðablöndunar verði bindandi - og megi aldrei verða framleiðsluaukandi bakdyraleið.
Byggðarráð telur afar varhugavert að ráðherra geti vikið frá ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar varðandi áhættumat erfðablöndunar og stillt heildarlaxamagn eftir öðrum þáttum. Áhættumatið ætti einungis að horfa til áhrifa laxeldis á villta laxastofna en ekki horfa til annarra þátta. Byggðarráð áréttar jafnframt að aðgerðir í ám skuli aldrei teljast mótvægisaðgerðir við áhættumat erfðablöndunar.
3.
Undanþáguheimildir sem opna á eldi innan friðunarsvæða verði felldar brott.
Byggðarráð Húnaþings vestra hafnar sérstaklega 3. mgr. 8. gr. (heimild til lokaðs eða hálflokaðs eldis innan svæða sem ella sættu banni eða friðun). Áratuga rekstrarreynsla við íslenskar aðstæður þyrfti að liggja fyrir sem sýndi með óyggjandi hætti að slík kerfi bæru enga áhættu fyrir villta laxastofna til að unnt væri að veita slíkar undanþágur. Byggðarráð telur að slíkrar reynslu megi aðeins afla á svæðum þar sem sjókvíaeldi er þegar stundað - en ekki með því að opna friðuð og viðkvæm svæði fyrir nýrri starfsemi með tilheyrandi áhættu.
4.
Dregið verði úr réttaróvissu um eignarrétt og komið í veg fyrir framleiðsluaukandi undanþágur.
Byggðarráð gerir alvarlega athugasemd við að löggjöfin festi mögulega í sessi atvinnuréttindi sem skapa framtíðartregðu til nauðsynlegra breytinga. Fjölmörg álit og umsagnir hafa bent á að hugtakið laxahlutur beri mörg einkenni eignarréttinda, sem geti leitt til skaðabótaskyldu þegar íslensk stjórnvöld setja strangari takmarkanir eða banna eldi í opnum kvíum með frjóum laxi síðar meir.

5.
Viðurlög við stroki verði raunverulega letjandi.
Byggðarráð telur að ákvæði um strok verði að hafa skýrar, fyrirsjáanlegar afleiðingar sem bíta á rekstrargrundvelli laxeldisfyrirtækja, m.a. með skerðingu framleiðsluheimilda og raunverulega letjandi sektum. Slík úrræði voru í ríkara mæli í fyrri frumvörpum en vantar í þau frumvarpsdrög sem nú eru lögð fram.
6.
Formlegur vettvangur hagsmunaaðila verði styrktur til að tryggja samráð og jafnræði.
Byggðarráð leggst gegn því að samráðsvettvangur hagsmunaaðila þ.m.t. sveitarfélaga verði veiktur og telur að efla eigi slíkt samráð fremur en að leggja það niður.
7.
Tryggja verður fjármögnun aðgerða veiðifélaga og verndar.
Byggðarráð telur óheppilegt að fjármögnun vegna vöktunar og rannsókna sé sett fram án skýrrar ráðstöfunar og krefst þess að veiðifélög og veiðiréttarhafar hafi raunhæfan aðgang að fjármagni til vöktunar, rannsókna og nauðsynlegra aðgerða til verndar villtum laxastofnum og lífríki ferskvatns.
8.
Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga.
Byggðarráð tekur undir athugasemd sem fram kemur í umsögn byggðarráðs Skagafjarðar um málið þar sem lögð er áhersla á að tekjuskipting á milli ríkis og sveitarfélaga vegna greinarinnar verði endurskoðuð. Brýnt er að sveitarfélög fái sína hlutdeild með beinum hætti, líkt og t.d. í Noregi, í stað þess að þurfa að sækja um úthlutun úr Fiskeldissjóði. Er því fagnað að komin sé fram tillaga um samfélagsframlag sem rennur beint til sveitarfélaga en eðlilegt væri að það framlag yrði ákveðið hlutfall af framleiðslugjaldi í stað fjárveitingar af fjárlögum hverju sinni.

Fundi slitið - kl. 15:10.

Var efnið á síðunni hjálplegt?