18. september 2023

Vikan 11.-14. september 2023

Eins og fram kom í dagbókarfærslu síðustu viku er dagskráin farin að þéttast verulega eftir sumarfrí og fleiri bókaðir fundir, kynningar, ráðstefnur o.s.frv. Einnig er fjárhagsáætlunargerð næsta árs að komast á fullt skrið með tilheyrandi krefjandi verkefnum, samráði við hina ýmsu aðila og fundi.

Eins og jafnan hófst vikan á fundi framkvæmdaráðs. Í kjölfar þess fundar sat ég tvo fundi samstarfsverkefna með nágrannasveitarfélögunum. Annars vegar fund framkvæmdaráðs í málefnum fatlaðs fólks og hins vegar fund framkvæmdaráðs barnverndanefndar á Mið-Norðurlandi. Bæði þessi verkefni eru unnin með þeim hætti að Skagafjörður er leiðandi sveitarfélag. Framkvæmdaráð verkefnanna er skipað bæjar/sveitarstjórum aðildarsveitarfélaganna og funda nokkrum sinnum yfir árið til að fara yfir stöðuna. Samstarfið um bæði verkefnin gengur vel.

Eftir hádegið fundaði svo byggðarráð. Þar bar hæst úthlutun lóðar á Laugarbakka undir skógarplöntuframleiðslu. Afar spennandi verkefni sem við bindum miklar vonir við að verði að veruleika á komandi misserum. Á fundinum var einnig skipað í Samgöngu- og innviðanefnd SSNV. Einnig bókaði ráðið um áhyggjur af stöðu sem upp er komin í laxveiðiám í héraðinu vegna strokulaxa úr sjókvíum. Fundargerð byggðarráðs er hér.

Á þriðjudeginum fórum ég, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs og rekstrarstjóri yfir fjárfestingaáætlun næstu ára í tengslum við fjárhagsáætlunarvinnuna. Um var að ræða fyrstu yfirferð sem síðan var lögð fyrir aukið byggðarráð á fimmtudagsmorguninn. Síðar um daginn fundaði ég með fulltrúum stjórnar félags eldri borgara um samstarfssamning og húsnæðismál félagsins. Ég hef áður sagt á þessum vettvangi og segi það enn að félagið vinnur frábært starf og er til þess horft víðsvegar að á landinu. Ég hitti jafnframt oddvita til að fara yfir dagskrá sveitarstjórnarfundar sem var á dagskrá á fimmtudaginn og sendi út fundarboð og birti á heimasíðu. Í lok dags sat ég svo fund með umsjónarmönnum verkefnisins um Barnvænt sveitarfélag en eins og kunnugt er gerðumst við aðilar að verkefninu á vordögum. Vinna við innleiðinguna fer af stað mjög fljótlega og mun vafalítið bera á góma í dagbókarskrifum næstu mánaða. Sú vinna er þónokkuð viðamikil og kallar á þátttöku margra, ekki síst unga fólksins í sveitarfélaginu.

Nýr slökkviliðsstjóri, Valur Freyr Halldórsson, tók til starfa í vikunni. Hann hóf störf á því að sitja námskeið í Reykjavík á mánudag og þriðjudag en mætti galvaskur í Ráðhúsið á miðvikudagsmorgun. Sú breyting hefur verið gerð á starfsstöð slökkviliðsstjóra að hún verður að megninu til í Ráðhúsinu auk slökkvistöðvar. Er þetta gert til að auka tengsl slökkviliðsstjóra við stjórnkerfi sveitarfélagins. Valur er gríðarlega reynslumikill í málaflokknum og ég hlakka til samstarfsins. Ég vil nota tækifærið til að þakka Kára fyrir vel unnin störf og gott samstarf. Við Valur byrjuðum á því að fara yfir ýmis mál fram eftir morgni. Það er í ýmis horn að líta í starfi slökkviliðsstjóra og heilmargt að koma sér inn í. Eftir hádegið fundaði ég með skólastjórum grunnskólans um ýmis mál. Þess utan sinnti ég ýmsum verkefnum við skrifborðið, uppáskrift reikninga, dagbókarskrifum vikunnar á undan, fjallskilamálum, málefnum Leigufélagsins Bústaðar hses., sorpmálum, undirbúningi sveitarstjórnarfundar, starfsmannamálum o.fl.

Fimmtudagurinn einkenndist af fundum með sveitarstjórn. Fyrir hádegið fundaði aukið byggðarráð sem kallað er, sem skipað er af sveitarstjórn. Var þetta fyrsti fundur ráðsins í tengslum við fjárhagsáætlun þar sem farið var yfir fyrstu drög áætlunar um fjárfestingar komandi ára, gjaldskrár og frístundakort. Fundargerð fundarins er hér. Eftir hádegið var svo hefðbundinn sveitarstjórnarfundur. Á fundinum fór fram hefðbundin staðfesting fundargerða og mála sem þarfnast sérstakrar afgreiðslu sveitarstjórnar. Einnig var lögð fram tillaga starfshóps um fasteignir, jarðir og lendur sveitarfélagsins. Samþykkti sveitarstjórn tillögurnar. Fundargerð sveitarstjórnar er að finna hér.

Í kjölfar sveitarstjórnarfundar átti ég fund með oddvita og formanni byggðarráðs um það sem efst er á baugi. Fundur sem vanalega er á föstudagsmorgnum en hentaði betur að hafa í kjölfar sveitarstjórnarfundarins í þetta skiptið. Fundurinn var gagnlegur að vanda og ég er þakklát fyrir það góða samstarf sem við eigum.

Föstudagurinn var í styttra lagi enda búnir að vera langir dagar yfir vikuna. Ég undirbjó fund veituráðs sem var á dagskrá komandi viku sem og fund byggðarráðs. Ég átti fund vegna fjallskilamála og sömuleiðis með forstöðumanni einnar stofnunar sveitarfélagsins vegna starfsmannamála. Sorpmálin tóku drjúgan part morgunsins en áfram er unnið að greiningu á niðurstöðu útboðsins sem fram fór á dögunum.

Lítið var tekið af myndum yfir vikuna – stundum gleymist það hreinlega. Læt því fylgja með sumarlega mynd af hádegisblómunum í garðinum hjá Lullu á Höfðabrautinni. Fínt að rifja upp sumardagana nú þegar haustið er farið að taka yfir.

Var efnið á síðunni hjálplegt?