Byggðarráð - 1262

Málsnúmer 2511002F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn - 397. fundur - 11.12.2025

Oddviti setti fund og óskaði eftir að fá að taka á dagskrá sem 12. dagskrárlið aukafund sveitarstjórnar og verður skýrsla sveitarstjóra þá 13. dagskrárliður. Samþykkt samhljóða.



Fundargerð 1262. fundar byggðarráðs lögð fram til afgreiðslu á 397. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér.
Þorleifur Karl Eggertsson oddviti kynnti fundargerð.
Aðrir liðir fundargerðarinnar og fundargerðin í heild sinni borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1262 Byggðarráð samþykkir veitingu afsláttar vegna viðburða í samfélagsþágu.
  • Byggðarráð - 1262 Í erindinu kemur fram að nemendur hyggjast safna sér fyrir gróðurhúsinu og hafi útbúið myndband til að kynna söfnunina sem sent verður á valda aðila. Ekki er óskað eftir fjárstuðningi frá sveitarfélaginu. Nemendur komu til fundar við sveitarstjóra og kynntu verkefnið og færðu henni myndir sem þeir teiknuðu af húsinu, grænmeti o.fl. Myndirnar voru lagðar fram á fundinum.

    Byggðarráð fagnar framtaki nemenda í elsta árgangi Leikskólans Ásgarðs og óskar þeim góðs gengis með söfnunina. Stuðningur sveitarfélagsins verður í formi kynningar á verkefninu ásamt því að koma húsinu fyrir á leikskólalóðinni þegar þar að kemur.
  • Byggðarráð - 1262 Því miður er ekki unnt að verða við styrkbeiðninni.
  • Byggðarráð - 1262 Í viðaukanum felst framlenging á samningi um rekstur Náttúrustofu Norðurlands vestra um eitt ár, út árið 2026.
    Byggðarráð samþykkir framlagðan samning og felur sveitarstjóra undirritun hans. Ráðið skorar á ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála að ganga sem fyrst frá framtíðarsamningi um rekstur stofunnar til að tryggja rekstrargrundvöll og starfsemi til langs tíma.
    Bókun fundar Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
  • Byggðarráð - 1262 Í bréfinu gerir bréfritari athugasemdir við afgreiðslu umsóknar sinnar um námsstyrk vegna náms í kennarafræðum við Háskólann á Akureyri og próftökugjald í fjarnámsstofu.

    Umsókn bréfritara um námsstyrk var tekin fyrir á 1250. fundi byggðarráðs og svohljóðandi bókað:

    „Fyrir liggur umsögn skólastjóra um beiðnina. Þar kemur fram að kennarahópur grunnskólans sé nær eingöngu skipaður einstaklingum með leyfisbréf eða í viðeigandi námi. Með tilliti til framtíðarskipulags og óvissu um þörf eftir fjögurra ára námstíma er erfitt að meta fyrirliggjandi þörf stofnunarinnar.
    Í ljósi framangreinds og með vísan í 6. gr. reglna um námsstyrki til starfsmanna Húnaþings vestra samþykkir byggðarráð að hafna umsókninni. Umsækjanda er bent á að hámarksstyrkur skv. framangreindum reglum er til tveggja ára og því gætu gefist tækifæri til að sækja um styrk síðar á námstímanum, einkum ef breyting verður á þörf stofnunarinnar.“

    Byggðarráð staðfestir fyrri afgreiðslu sína á beiðni um námsstyrk enda er hún í samræmi við gildandi reglur um veitingu námsstyrkja og mat skólastjóra á þörf. Við lok yfirstandandi skólaárs verða um 90% kennara við Grunnskóla Húnaþings vestra með kennsluréttindi auk eins réttindakennara sem er í námsleyfi. Er það hlutfall hátt samanborið við skóla af sambærilegri stærð.

    Hvað próftökugjald í fjarnámsstofu varðar urðu þau leiðu mistök að tilkynningu þar um var ekki komið á framfæri við notendur þjónustunnar þegar gjaldskrá tók gildi í upphafi árs 2025. Hlutaðeigendur eru beðnir innilegrar afsökunar á því. Vegna þeirra mistaka verður ekki innheimt próftökugjald vegna ársins 2025.

  • Byggðarráð - 1262 Byggðarráð felur sveitarstjóra að ganga frá umsókn fyrir hönd sveitarfélagsins.
  • Byggðarráð - 1262 Í minnisblaðinu er lögð fram tillaga um að þóknun fulltrúa í sameiginlegri kjörstjórn Dalabyggðar og Húnaþings vestra verði í samræmi við þóknun fulltrúa í kjörstjórn Húnaþings vestra. Formaður fái greiddar kr. 8.664 pr. klst. Aðrir stjórnarmenn kr. 7.076 pr. klst.
    Byggðarráð samþykkir framlagða tillögu. Vert er að taka fram að þóknun kjörstjórnar greiðst af sérstökum styrk jöfnunarsjóðs til sameiningarviðræðna.
    Bókun fundar Liljana Milenkoska vék af fundi kl. 15:06.
    Afgreiðsla byggðarráðs borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum.
    Liljana kom til fundar að nýju kl. 15:08.
  • Byggðarráð - 1262 Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.
  • Byggðarráð - 1262 Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.
  • Byggðarráð - 1262 Húnaþing vestra vill leggja áherslu á mikilvægi þess að stefnumótun og lagasetning stjórnvalda taki fullt tillit til þeirra aðstæðna sem einkenna sveitarfélög á landsbyggðinni. Reynslan sýnir að ákvarðanir hins opinbera leiða oft til ófyrirséðra áhrifa á rekstur og þjónustu sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta á sérstaklega við um fjárhagsleg áhrif, en einnig flækjur í regluverki, skerðingu á þjónustu eða aukna stjórnsýslubyrði.

    Húnaþing vestra tekur því undir það mat sem fram kemur í greinargerð tillögunnar, að innleiðing landsbyggðarmats geti:
    -
    komið í veg fyrir óvæntar byrðar,
    -
    aukið gagnsæi og samhæfingu í stjórnsýslu ríkisins,
    -
    og bundið í upphafi vinnslu mála þá hagsmuni sem annars kæmu fram alltof seint þegar mótvægisaðgerðir yrðu kostnaðarsamar eða of seint fram komnar.

    Sveitarfélagið tekur sérstaklega undir þá áherslu sem fram kemur í tillögunni, að með slíku mati sé „dregið úr líkum á því að síðar þurfi að grípa til kostnaðarsamra mótvægisaðgerða til að leiðrétta óvæntar byrðar eða ósanngjörn áhrif stefnumótunar eða lagasetningar stjórnvalda“. Þetta er grundvallarsjónarmið, ekki aðeins í þágu tiltekinna svæða heldur alls samfélagsins, þar sem vandað ferli frá upphafi tryggir bæði réttláta og hagkvæma ákvörðunartöku fyrir ríkið í heild.

    Húnaþing vestra vill jafnframt undirstrika að landsbyggðarmat þarf að byggjast á raunhæfum gögnum og staðbundinni greiningu, í samráði við sveitarfélög sem þekkja aðstæður best. Slíkt samstarf eykur gæði matsins og tryggir að niðurstöður þess verði bæði markvissar og framkvæmanlegar.

    Að öllu framangreindu virtu styður Húnaþing vestra heilshugar framlagða þingsályktunartillögu og telur hana mikilvægt skref í átt að sanngjarnari og ábyrgari stjórnsýslu gagnvart íbúum landsbyggðarinnar og sveitarfélögum þeirra.
  • Byggðarráð - 1262 Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið samþykkir skipun raflínunefndar vegna Holtavörðuheiðarlínu 1.

    Byggðarráð ítrekar fyrri afstöðu sína til skipan raflínunefnda þess efnis að með því sé gengið á skipulagsvald sveitarfélaga.
  • Byggðarráð - 1262
  • Byggðarráð - 1262
  • Byggðarráð - 1262
  • Byggðarráð - 1262
  • Byggðarráð - 1262 Byggðarráð samþykkir framlengingu leigusamnings til 30. nóvember 2026.
Var efnið á síðunni hjálplegt?