21. ágúst 2023

Dagbók sveitarstjóra hefur nú göngu sína að nýju eftir sumarfrí. Þó hefur undirrituð ekki verið í fríi frá því í júní þegar síðasta dagbókarfærsla var birt en þótti rétt að gera hlé yfir sumartímann til að gera lesendur því spenntari þegar skrif hæfust að nýju :)

Sumarið hefur verið viðburðarríkt, bæði persónulega og í starfi. Persónulega bar það hæst að ég náði fyrr í sumar þeim merka áfanga að verða fimmtug og fór í gott sumarfrí með heimilisfólkinu í tilefni þess. Þegar ég kom til vinnu að nýju hófst ég handa að ganga á listann yfir þau verkefni sem geymd eru til að vinna í "dauða tímanum" en þó hefur gengið ótrúlega hægt að saxa á hann. Eftir því sem árunum fjölgar sannfærist ég enn frekar um að "dauði tíminn" er ekki til. Í það minnsta hefur mér alveg mistekist að finna hann.

Það hefur ýmslegt gerst síðan síðasta dagbókarfærsla var skrifuð. Eins og jafnan er ráðist í ýmsar framkvæmdir í sveitarfélaginu yfir sumartímann. Þær helstu í ár voru auðvitað framkvæmdir við lagnakjallara við sundlaugina og opnaði hún aftur 21. júlí eftir langa lokun. Ég vil nota tækifærið og þakka íbúum og öðrum gestum biðlundina á meðan á framkvæmdum stóð. Það er aldrei góður tími til að loka sundlaug og ég hef fullan skilning á að lokunin hafi komið illa við fastagesti og ekki síður þjónustuveitendur á svæðinu. Við endurræsingu pottanna kom í ljós bilun í búnaði heita pottsins sem panta þurfti erlendis frá og var nokkra vikna bið í. Vonandi kemst hann í gagnið sem fyrst og þá er allt orðið eins og það á að vera, og jafnvel betra.

Af öðrum framkvæmdum má nefna vatnslögnina til Laugarbakka. Sú framkvæmd gengur vel og gert ráð fyrir að henni ljúki með haustinu. Eins og undanfarin ár höfum við verið að lenda í vatnsskorti á Laugarbakka í sumar sem kallað hefur á vatnsflutninga. Þeir munu heyra sögunni til þegar hleypt verður á nýju lögnina. Áfram hefur verið haldið með endurbætur á Reykjaskóla og eru húsaynni skólabúðanna nú að verða komin í mjög gott horf. Einnig hefur áfram verið unnið í lóð Grunnskólans á Hvammstanga, hellu og þökulagningu og nú er verið að vinna jarðvinnu undir glæsilegan körfuboltavöll sem setja á upp syðst á lóðinni, fyrir ofan sparkvöllinn. Á honum verða sex körfur svo hægt verður að spila bæði þvers og langs. Leiktækin sem þar voru verða flutt norðan við sparkvöllinn. Ekki má gleyma frisbígolfvellinum sem nú er kominn upp í Hvammi og ég hvet fólk til að prófa. Jón Ívar Hermannsson tók upp á því að eigin frumkvæði að skrá völlinn á helsta frisbígolf appinu sem frisbarar (er það orð?) notast við eða U-Disc. Þar er hægt að fá upplýsingar um velli, skrá stig, halda utan um spilamennskuna og gefa völlum einkunn. Hvet íbúa til að kíkja upp í Hvamm, taka hring og auðvitað skrifa umsögn um völlinn. Það þarf ekki endilega að gera skorið sýnilegt en um að gera að láta fólk vita af því hversu góður völlurinn er með umsögn. Þegar þetta er skrifað eru komnar tvær 5 stjörnu umsagnir (ein ef dregin er frá umsögn sveitarstjórans).

Fimmta brautin á frisbígölfvellinum Kirkjuhvammi.

Um leið og völlurinn var settur upp uppi í Hvammi voru settar upp tvær stakar körfur á Bangsatún. Þessar körfur voru gjöf frá Húnaklúbbnum í samstarfi við ungmennaráð Húnaþings vestra. Ég þakka Húnaklúbbnum kærlega þessa höfðinglegu gjöf. Það er upplagt að fara á Bangsatúnið með yngri krakkana og eins til að æfa tilþrifin. Mér fannst mjög gaman að sjá út um gluggann á skrifsofunni hjá mér þegar nokkrir nemendur í leikskólanum Ásgarði röltu yfir Hvammstangabrautina með kennaranum sínum með frisbídiska í hönd á leið á Bangsatúnið í frisbí. Hvað færni sveitarstjórans í frisbí varðar þá er þetta um hana að segja: Ég hlakka til þegar ég næ þeirri færni að diskurinn fer í þá átt sem ég ætla honum. Er ekki alveg komin þangað og er það ástæðan fyrir því að ég birti ekki stigin á U-Disc appinu. Völlurinn er par 3 völlur en ég var nær par 6 skori. Það er ekki hægt að vera góður í öllu.

Það hefur verið haft á orði undanfarið að Húnaþing vestra hafi verið óvenju mikið í fjölmiðlum upp á síðkastið. Það er held ég bara alveg rétt og helgast að hluta til af því að Magnús Hlynur fréttamaður á Stöð2, Vísi og Bylgjunni kom í fréttasöfnunarferð á dögunum. Hann var hér á ferð til að taka viðtal og bað mig um að hitta sig í leiðinni og spurði frétta eins og honum er einum lagið. Úr urðu nokkur innslög í fréttir á Stöð2 og fréttir á visi.is. Læt fylgja hér valda hlekki ef ske kynni að einhverjir hefðu misst af þessu:

Umfjöllun um Riis hús.

Heimsókn á Selasetrið.

Umfjöllun um áform KVH um skógarplöntuframleiðslu.

Heimsókn til Regínu í Löngufit.

Viðtal við sveitarstjóra um lóðaframboð og fleira.

Umfjöllun um ljósmyndasýninguna Fl(j)óð í tengslum við Eld í Húnaþingi.

Frá opnun ljósmyndasýningarinnar Fl(j)óð í Íþróttamiðstöðinni á Hvammstanga í tengslum við Eld í Húnaþing.

Svo þótti fréttnæmt á dögunum þegar kynnt var að frá og með 1. september verður lögreglustöðin á Hvammstanga mönnuð. Baráttumál sveitarstjórna um langt árabil. RUV fjallaði m.a. um málið. Gárungarnir á samfélagsmiðlum höfðu það á orði að fréttirnar væru skellur fyrir undirheima sveitarfélagsins og að nú yrðu menn að fara að slá af ferðinni upp á Holtavörðuheiðinni. Að öllu gamni slepptu er um mikið hagsmunamál að ræða sem eykur öryggi, bætir þjónustu og hefur mikið forvarnargildi. 

Af öðru því sem gerst hefur í sumar má nefna:

Ekki verður í þessari færslu farið ofan hvað á daga sveitarstjóra hefur drifið dag fyrir dag eins og jafnan hefur verið gert í dagbókarfærslum. Þetta yfirlit verður látið duga fyrir sumarmánuðina og að viku liðinni verður fyrri háttur tekinn upp og farið yfir helstu verkefni liðinnar viku.

Ég vona að sumarið hafi leikið lesendur vel og haustið leggist vel í mannskapinn. Segir svo hugur um að það verði fallegt og veturinn sömuleiðis.

Var efnið á síðunni hjálplegt?