UMFÍ tekur við rekstri Skólabúðanna á Reykjum

UMFÍ tekur við rekstri Skólabúðanna á Reykjum

Í dag var undirritaður nýr samningur um rekstur Skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði við Ungmennafélag Íslands frá og með komandi hausti.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra auglýsti í mars á þessu ári eftir samstarfsaðila um rekstur Skólabúðanna að Reykjum og sóttist UMFÍ eftir samstarfi við sveitarfélagið um rekstur þeirra.

Í umboði Húnaþings vestra annast UMFÍ rekstur skólabúðanna, en um 3.200 börn sækja búðirnar á hverju skólaári. Í samningnum kemur m.a. fram að í skólabúðunum sé unnið eftir Heimsmarkmiðum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og aðalnámskrá grunnskóla. Sérstök áhersla er lögð á uppeldis- og félagsleg markmið. Í skólabúðunum eru nemendur einnig kynntir fyrir sögu og atvinnuháttum á landsbyggðinni með skipulagðri safnakennslu í samstarfi við Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra þakkar fráfarandi rekstaraðilum farsælt samstarf við rekstur skólabúðanna sl. 20 ár og þeim óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra býður UMFÍ hjartanlega velkomið í Hrútafjörðinn með óskum um ánægjulegt og farsælt samstarf. Vonir standa til að undir dyggri stjórn UMFÍ muni starfsemi Skólabúðanna að Reykjum blómstra í fagurri náttúru Hrútafjarðarins og þeirri sögu sem firðinum fylgir.

Var efnið á síðunni hjálplegt?