Þriðji Grænfáninn á Leikskólann

Þriðji Grænfáninn á Leikskólann

Leikskólinn Ásgarður, Hvammstanga fékk afhendan sinn þriðja grænfána í desember. Fyrsta fánann fékk leikskólinn árið 2011.

Grænfánaverkefnið er á vegum Landverndar, þar sem skólar á öllum skólastigum geta tekið þátt í verkefninu. Áherslan er á menntun til sjálfbærni, umhverfismennt og á almennt umhverfisstarf þar sem starfið á að vera sem sýnilegast útí nærsamfélagið. Grænfáninn sjálfur er síðan viðurkenning til skóla fyrir vel unnið verk. Fyrir hönd Landverndar, afhenti Ína Björk Ársælsdóttir, Umhverfisstjóri Húnaþings vestra Ásgarði fánann.

Þemu Ásgarðs fyrir fána þrjú voru lífsbreytileiki annarsvegar og loftlagsbreytingar og samgöngur hins vegar. Markmið fyrir lífsbreytileika voru að bjóða dýr velkomin á skólalóðina, að huga að ræktun bæði inni og úti og fræðast um ólík dýr og heimkynni þeirra. Markmið fyrir loftslagsbreytingar og samgöngur voru að kynna hugtakið loftslagsbreytingar, sem er ansi þungt hugtak fyrir unga krakka, en hægt var að tengja hugtakið við mengun og dýr og heimkynni þeirra, hvað gerist t.d ef ísinn hjá ísbirninum bráðnar? Og að lokum var kynntur vistvænn ferðamáti, hvetja börn sem það geta að velja grænni ferðamáta, minna foreldra á að hafa bílinn ekki í lausagangi o.fl.

Þessu unnu starfsfólk leikskólans og nemendur að ásamt öðru sem orðið er fastur liður í skólastarfinu, borða hollan mat, forðast matarsóun, stuðla að hreyfingu og fleira til.

Umhverfissáttmáli Ásgarðs:
Leikskólinn Ásgarður hefur tekið þá stefnu að vinna markvisst að því að nemendur, starfsfólk og skólasamfélagið í heild tileinki sér þá hugsun að vera ábyrgur gagnvart umhverfi og náttúru.

Það þarf dugnað og kraft til að ná þeim árangri að fá Grænfánann í þriðja sinni og það hafa starfsfólkið og nemdurnir sjálfir, svo sannarlega sýnt og endurgjöfin er þessi þriðji fáni Grænfánans.
Innilegar hamingjuóskir til starfsmanna og nemenda á leikskólanum Ásgarði.
Ína Björk Ársælsdóttir Umhverfisstjóri Húnaþings vestra.

Var efnið á síðunni hjálplegt?