Þingmenn kjördæmisins funda með sveitarstjórn

Þingmenn kjördæmisins funda með sveitarstjórn

Kjördæmavika Alþingis stendur nú yfir. Í henni fara þingmenn heim í kjördæmi sín og funda með sveitarstjórnum. Slíkur fundur var haldinn mánudaginn 3. október hér í Húnaþingi vestra. Þingmenn fengu kynningu á stöðu sveitarfélagsins og farið var yfir helstu áherslumál. Á fundinum var meðal annars rædd sú ánægja íbúa með sveitarfélagið sem kemur berlega í ljós í íbúakönnunum. Sjá hér.

Einnig var farið yfir umtalsverðar framkvæmdir í sveitarfélaginu undanfarin ár, svo sem viðbyggingu við Grunnskólann, hitaveituframkvæmdir og íbúðauppbyggingu. Jafnframt var farið yfir þær framkvæmdir sem á döfinni eru.

Að lokum fór sveitarstjórn yfir helstu áhersluatriði sín. Var Vatnsnesvegurinn og aðrar brýnar vegaframkvæmdir þar efst á blaði. Staðan í landbúnaði, einkum sauðfjárrækt, bar á góma, tækifæri til flutnings óstaðbundinna starfa í sveitarfélagið, orkumál, málefni fatlaðs fólks, niðurgreiðsla sveitarfélagsins með dreifnámsdeildinni sem og nauðsynlegar úrbætur á hafnarmannvirkjum. Fjölmög fleiri framfaramál voru rædd.

Þingmönnum er þökkuð heimsóknin og góðar umræður.

Var efnið á síðunni hjálplegt?