Frá starfsdeginum. Ingrid Kuhlman fræðir þátttakendur um tímastjórnun.
Mánudaginn 18. ágúst fór fram starfsdagur starfsfólks Húnaþings vestra. Kom allt starfsfólk sveitarfélagsins þá saman í Félagsheimilinu Hvammstanga til að hlýða á fyrirlestra sem nýtast þeim í starfi.
- Helena Jónsdóttir, klínískur sálfræðingur hjá Mental ráðgjöf fjallaði um geðheilsustefnu sveitarfélagsins og ábyrgð hvers og eins í því að viðhalda eigin geðheilsu. Unnið var í hópum að innleggi í stefnuna. Var hún í framhaldi af vinnunni send í samráð meðal starfsmanna og verður að því loknu uppfærð og send byggðarráði til yfirferðar og samþykktar. Mikilvæg og þörf vinna sem hófst í upphafi árs með geðheilsuátaki og verður fram haldið á komandi misserum.
- Ingrid Kuhlman frá Þekkingarmiðlun hélt tvo fyrirlestra. Annars vegar um tímastjórnun og hins vegar um streitu og kulnun.
- Anna Steinsen fjallaði um samskipti og fór meðal annars yfir ólíkt samskiptaform ólíkra kynslóða.
Viðfangsefnin voru valin út frá áherslum sem fram komu í könnun sem lögð var fyrir starfsmenn á vegum Farskólans fyrir nokkru síðan.
Góður rómur var gerður af deginum en fá tækifæri gefast til að allur starfsmannahópurinn komi saman. Í raun var þetta í fyrsta sinn sem starfsmenn allir komu saman á starfsdegi af þessum toga en einu sinni áður hafði hópurinn komið saman til vinnustofu til að móta mannauðsstefnu sveitarfélagsins.
Það að ná öllum starfsmönnum saman krefst nokkurrar skipulagningar en ákveða þarf daginn í tengslum við gerð skóladagatals með árs fyrirvara til að daginn beri upp á starfsdögum leik- og grunnskóla. Jafnframt þarf að loka öðrum stofnunum á meðan. Það er hins vegar fyllilega fyrirhafnarinnar virði því mikilvægt er að starfsmenn finni að þeir eru hluti af órofa heild sem vinnur saman að því að þjónusta íbúa sveitarfélagsins.
Við þökkum íbúum skilninginn á því að stofnanir voru lokaðar þennan dag og starfsfólki fyrir góða þátttöku.