Höfðinglegur stuðningur Gæranna á síðasta ári

Frá Nytjamarkaðnum Hvammstanga.
Frá Nytjamarkaðnum Hvammstanga.

Nytjamarkaðurinn á Hvammstanga er mörgum af góðu kunnur. Hann er rekinn af Gærunum, vöskum hópi kvenna sem hafa lagt áherslu á að gefa aftur út í samfélagið til hinna ýmsu framfaramála þann ágóða sem er af rekstri markaðarins. Slagorð þeirra er „Eins rusl er annars gull“. Eru það orð að sönnu því á síðasta ári gáfu þær líkt og fyrri ár gjafir til stofnana sveitarfélagsins af miklum rausnarskap.

Stærsta gjöfin á árinu var stafræn klukka til íþróttamiðstöðvar sem jafnframt sýnir hitastig laugar og potta. Sjá nánar hér. Einnig gáfu þær Grunnskólanum tvær gjafir, til frístundar til kaupa á leikföngum og til kaupa á fimm tölvum í náttúrufræðistofu. Leikskólinn naut líka gjafmildis hópsins til leikfangakaupa. 

Sveitarfélagið færir Gærunum hjartans þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag til eflingar samfélagsins í gegnum árin. Framlag þeirra er ómetanlegur stuðningur.

Var efnið á síðunni hjálplegt?