Dreifnám - Fréttatilkynning

Formleg opnun framhaldsdeildar á Hvammstanga fer fram þann 12. nóvember kl. 16:00 í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Þann dag verður einnig opið hús í húsakynnum deildarinnar, á neðri hæð félagsheimilisins kl. 16:00-18:00. Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, verður viðstödd opnunina og mun undirrita samstarfssamning milli Húnaþings vestra og FNV. Boðið verður upp á vöfflur og kaffi á efri hæðinni.

Í haust var stofnuð framhaldsdeild frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Hvammstanga. Verkefnið er samstarfsverkefni milli Húnaþings vestra og FNV. Í dreifnáminu geta nemendur úr Húnaþingi vestra stundað nám á framhaldsskólastigi undir stjórn kennara FNV, með aðstoð nútíma upplýsingatækni. Markmiðið er að nemendur geti stundað almennt bóknám fyrstu 2 árin í sinni heimabyggð.
Umsjónarmaður deildarinnar á Hvammstanga er Rakel Runólfsdóttir og heldur hún utan um starfsemina þar. Öll kennsla fer fram gegnum fjarfundabúnað frá Sauðárkróki. Nemendafjöldi í dreifnáminu er 17, þar af 12 sem útskrifuðust úr 10. bekk s.l. vor.

Dreifnámið byggir á að veita nemendum almennan bóklegan grunn fyrstu tvö árin. En almennt má segja að dreifmennt sé góður kostur til að brúa bil milli landshluta og gera einstaklingum kleift að stunda nám hvar sem þeir eru staðsettir.

Nemendur í dreifnámi fara í tvær námslotur á Sauðárkróki á hverri önn, viku í senn. Loturnar eru mikilvægur hluti af náminu, þá gefst nemendum tækifæri til þess að hitta kennara, fá verklega kennslu og stunda félagslíf.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Húnaþing vestra.

Var efnið á síðunni hjálplegt?