Innleiðing landsbyggðarmats í stefnumótun og lagasetningu stjórnvalda - Mál til umsagnar - Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis

Málsnúmer 2511032

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1262. fundur - 24.11.2025

Lagt fram til umsagnar mál frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis varðandi umsögn um þingsályktunartillögu um innleiðingu landsbyggðarmats í stefnumótun og lagasetningu stjórnvalda, 175. mál.
Húnaþing vestra vill leggja áherslu á mikilvægi þess að stefnumótun og lagasetning stjórnvalda taki fullt tillit til þeirra aðstæðna sem einkenna sveitarfélög á landsbyggðinni. Reynslan sýnir að ákvarðanir hins opinbera leiða oft til ófyrirséðra áhrifa á rekstur og þjónustu sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta á sérstaklega við um fjárhagsleg áhrif, en einnig flækjur í regluverki, skerðingu á þjónustu eða aukna stjórnsýslubyrði.

Húnaþing vestra tekur því undir það mat sem fram kemur í greinargerð tillögunnar, að innleiðing landsbyggðarmats geti:
-
komið í veg fyrir óvæntar byrðar,
-
aukið gagnsæi og samhæfingu í stjórnsýslu ríkisins,
-
og bundið í upphafi vinnslu mála þá hagsmuni sem annars kæmu fram alltof seint þegar mótvægisaðgerðir yrðu kostnaðarsamar eða of seint fram komnar.

Sveitarfélagið tekur sérstaklega undir þá áherslu sem fram kemur í tillögunni, að með slíku mati sé „dregið úr líkum á því að síðar þurfi að grípa til kostnaðarsamra mótvægisaðgerða til að leiðrétta óvæntar byrðar eða ósanngjörn áhrif stefnumótunar eða lagasetningar stjórnvalda“. Þetta er grundvallarsjónarmið, ekki aðeins í þágu tiltekinna svæða heldur alls samfélagsins, þar sem vandað ferli frá upphafi tryggir bæði réttláta og hagkvæma ákvörðunartöku fyrir ríkið í heild.

Húnaþing vestra vill jafnframt undirstrika að landsbyggðarmat þarf að byggjast á raunhæfum gögnum og staðbundinni greiningu, í samráði við sveitarfélög sem þekkja aðstæður best. Slíkt samstarf eykur gæði matsins og tryggir að niðurstöður þess verði bæði markvissar og framkvæmanlegar.

Að öllu framangreindu virtu styður Húnaþing vestra heilshugar framlagða þingsályktunartillögu og telur hana mikilvægt skref í átt að sanngjarnari og ábyrgari stjórnsýslu gagnvart íbúum landsbyggðarinnar og sveitarfélögum þeirra.
Var efnið á síðunni hjálplegt?