Frumvarp til laga um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamál - Mál til umsagnar - umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis

Málsnúmer 2509107

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1257. fundur - 06.10.2025

Lagt fram til umsagnar mál frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis varðandi umsögn um frumvarp til laga um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamál, 105. mál.
Málið var lagt fram á 156. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Byggðarráð veitti umsögn um málið á 1243. fundi sínum þann 28. apríl 2025 þar sem gerð var athugasemd við að með frumvarpinu yrði lögð fram ein innviðastefna fyrir öll málefnasvið ráðuneytisins. Í því frumvarpi sem nú er lagt fram er horfið frá þeim áformum. Byggðarráð fagnar þeirri breytingu. Í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum er hins vegar gerð sú breyting á 4. gr. að í stað þess að skipa skuli þrjú stefnuráð skipi ráðherra „stefnuráð, eitt eða fleiri“. Með því er opnað á þann möguleika að þrátt fyrir að stefnur séu lagðar fram á hverju málefnasviði sé aðeins eitt ráð sem ber ábyrgð á undirbúningi og vinnu við þær allar. Byggðarráð gerði athugasemd við þá breytingu þegar málið var lagt fram á síðasta þingi með þeim rökum að málefnasvið á sviði samgöngu-, byggðamála og fjarskipta er afar breitt sem getur komið niður á gæðum vinnunnar sökum skorts á sérþekkingu. Auk þess yrði vinnan afar viðamikil. Í skýringum með frumvarpsdrögunum eru megin rökin með einu stefnuráði m.a. tilgreind aukin samhæfing í stefnumörkun á málefnasviðum ráðuneytisins. Samhæfingu má að mati byggðarráðs auðveldlega ná fram með öðrum leiðum en að fela einu þriggja manna ráði ábyrgð á vinnu við allar stefnur á málefnasviði ráðuneytisins. Byggðarráð Húnaþings vestra ítrekar þá athugasemd og leggur til að horfið verði frá þeim áformum að skipað verði eitt stefnuráð.
Var efnið á síðunni hjálplegt?