Niðurfelling varnarlína vegna sauðfjársjúkdóma

Málsnúmer 2506016

Vakta málsnúmer

Landbúnaðarráð - 219. fundur - 02.07.2025

Dagbjört Diljá Einþórsdóttir boðaði forföll og varamaður hennar hafði ekki tök á að sækja fundinn.
Lagt fram erindi frá atvinnuvegaráðuneytinu vegna niðurfellingar varnarlína vegna sauðfjársjúkdóma, þ.m.t. Vatnsneslínu sem liggur úr Miðfjarðarvatni í Síðukrók við ósa Víðidalsár.
Í erindinu er ferli ákvörðunar við niðurfellingar varnarlínunnar lýst og kemur m.a. fram að samráð hafi verið haft við Bændasamtök Íslands um áformin og engar athugasemdir borist. Landbúnaðarráð lýsir furðu á að ekki hafi verið leitað umsagna hjá sveitarfélaginu þar sem það er beinn aðili málsins ásamt þeim bændum sem á svæðinu búa. Beinir ráðið því til ráðuneytisins að gerð verði breyting á því verklagi.

Það er ljóst að mikill kostnaður er fólginn í viðhaldi varnargirðinga vegna búfjársjúkdóma. Landbúnaðarráð vill hins vegar vara við því að of bratt verði farið í sparnað við viðhald þeirra girðinga sem eftir eiga að standa. Nauðsynlegt er, í kjölfar fækkunar varnarlína, að þær línur sem þó eru eftir verði almennilega viðhaldið og betur en undanfarin ár, en gríðarlegur skortur hefur verið á viðhaldsfé í varnargirðingar um árabil. Þá vill ráðið árétta að þó varnargirðingar hafi undanfarna áratugi verið helst nýttar sem varnir gegn riðu þá voru þær upphaflega lagðar sem vörn gegn mæðiveiki og hafa einnig nýst sem varnir gegn garnaveiki. Ómögulegt er að spá fyrir um hvað bíður okkar í framtíðinni hvað innflutning á sjúkdómum varðar og eðlilegt væri að einhverjir varnaglar væru settir við niðurfellingar varnarlína með tilliti til þess.

Að auki skal áréttað að ef Matvælastofnun/atvinnuvegaráðuneyti ákveða að leggja niður ákveðnar varnarlínur er það þeirra en ekki sveitarfélags/ bænda/landeigenda að hreinsa í burtu ónýtar girðingar sem eftir kunna að vera.

Landbúnaðarráð leggur því til við byggðarráð að sveitarfélagið þiggi ekki boð um að eignast varnarlínuna. Ráðið beinir því jafnframt til ráðuneytisins að þeim landeigendum sem eiga jarðir að girðingunni verði boðið að eignast línuna sér að kostnaðarlausu enda afmarka línurnar í einhverjum tilfellum jarðir. Kjósi þeir að þiggja hana ekki sé það Matvælastofnunar/atvinnuvegaráðuneytis að fjarlægja línuna á sinn kostnað.
Var efnið á síðunni hjálplegt?