Kerfisáætlun Landsnets 2025-2034

Málsnúmer 2504038

Vakta málsnúmer

Byggðarráð - 1243. fundur - 28.04.2025

Lögð fram umsagnarbeiðni frá Landsneti um Kerfisáætlun 2025-2034.
Í Kerfisáætlun Landsnets er fjallað um þau verkefni sem áformuð eru á árabilinu 2025-2034. Þó öll uppbygging raforkukerfisins á landinu varði Húnaþing vestra er hér einkum fjallað um þrjú verkefni sem á áætluninni eru og að hluta eða öllu leyti eru innan sveitarfélagamarka Húnaþings vestra.

Laugarbakki - nýtt tengivirki
Um er að ræða byggingu nýs 132kV afhendingarstaðar í meginflutningskerfinu sem mun tengjast inn á Laxárvatnslínu 1 við Laugarbakka. Megintilgangur framkvæmdarinnar er að auka afhendingargetu á svæðinu til að koma til móts við framtíðarálagsaukningu. Byggðarráð fagnar framkvæmdinni enda möguleikar til atvinnuuppbyggingar sem krefjast orku engir á svæðinu fyrr en tengivirkið verður risið. Byggðarráð mælist til þess að leitað verði leiða til að flýta framkvæmdinni enn frekar en áformað er að hún fari fram á árunum 2027-2029.

Holtavörðuheiðarlína 1
Um er að ræða lagningu nýrrar 220kV loftlínu frá tengivirki á Klafastöðum að nýju tengivirki sem reist verður á Holtavörðuheiði. Verkefnið er hluti af endurnýjun byggðalínu og sem slíkt afar mikilvægt til að auka bæði afhendingargetu og -öryggi um land allt. Lítill hluti línunnar er innan sveitarfélagamarka Húnaþings vestra en þó ekki í löndum sveitarfélagsins. Byggðarráð lýsir sig fúst til samstarfs um allt það sem að sveitarfélaginu snýr í tengslum við framkvæmdina enda verkefnið afar mikilvægt fyrir landsmenn alla.

Holtavörðuheiðarlína 3
Um er ræða lagningu nýrrar 220kV loftlínu frá Blönduvirkjun í nýtt tengivirki á Holtavörðuheiði. Mun línan loka tengingu frá Fljótsdal að Klafastöðum og er því mikilvægur hluti af nýrri kynslóð byggðalínu með það að markmiði að auka afhendingargetu og -öryggi um land allt. Fyrir liggja tveir meginvalkostir um lagningu línunnar. Byggðarráð vísar til umsagnar um umhverfismatsskýrslu um verkefnið dags. 17. febrúar 2025 þar sem áhersla er lögð á að farin verði svokölluð heiðaleið en hún liggur að stórum hluta um lönd sveitarfélagsins sem einfaldar framkvæmdina verulega.
Var efnið á síðunni hjálplegt?