Velkomin á nýja heimasíðu Húnaþings vestra!

Ágæti lesandi!

Velkomin á nýja heimasíðu Húnaþings vestra!
Með því að taka í notkun nýja heimasíðu viljum við veita íbúum og gestum greiðan aðgang að upplýsingum er varða stjórnkerfi sveitarfélagsins.

Á síðunni má m.a. finna upplýsingar um nefndir og ráð, stofnanir og starfsemi, fundargerðir fastanefnda og yfirlit um þá fjölbreyttu þjónustu sem sveitarfélagið veitir.  Á heimasíðunni verður einnig að finna víðtækar upplýsingar fyrir íbúa og ferðamenn um þá víðtæku þjónustu sem er í boði í Húnaþingi vestra, athyglisverða staði, viðburðadagatal o.fl.

Íbúar Húnaþings vestra eru hvattir til að fylgjast með málefnum sveitarfélagsins en í þeim tilgangi eru m.a. fundargerðir allra nefnda og sveitarstjórnar aðgengilegar á heimasíðunni. Í nútíma samfélagi er gott aðgengi að upplýsingum afar mikilvægt m.a. til að efla skoðanaskipti og umræðu. Á heimasíðunni er þannig að finna netföng sveitarstjórnarmanna og starfsmanna sveitarfélagsins til að auðvelda aðgengi íbúa að þeim. Það er einnig eftirsóknarvert fyrir stjórnsýslu sveitarfélagsins að íbúar og gestir sendi okkur ábendingar og athugasemdir um það sem betur mætti fara því með öflugu samstarfi gerum við gott samfélag betra.

Heimasíðunni er ætlað að kynna Húnaþing vestra sem víðast. Við viljum kynna sveitarfélagið sem ákjósanlegan áningastað fyrir ferðfólk og benda m.a. á fjölbreytta þjónustu, ósnortna náttúru og menningu sem hér er að finna og hægt er að njóta. Ekki síst viljum við koma því á framfæri hve gott er að búa í Húnaþing vestra og þess vegna sé eftirsóknarvert fyrir fjölskyldur og fyrirtæki að setjast hér að.

Bestu kveðjur,

Skúli Þórðarson, sveitarstjóri.

Var efnið á síðunni hjálplegt?