Vel sóttur íbúafundur

Vel sóttur íbúafundur

Fjölmennur íbúafundur um deiliskipulagstillögu hafnarsvæðisins var haldinn í gær en um 120 manns sóttu fundinn.  Fundurinn var góður og fór vel fram.  Mikið var rætt um staðsetningu fjölbýlishúss og voru skoðanir skiptar en einnig var rætt um fornleifar, smábátahöfn, bílastæði og fleira.  Gagnlegar spurningar og ábendingar komu fram sem verða nýttar við áframhaldandi vinnu. 

Óskar Örn Gunnarsson skipulagsfræðingur SFFÍ  hjá Landmótun kynnti skipulagstillöguna.  Guðný Hrund Karlsdóttir sveitarstjóri fór yfir valkostagreiningu vegna staðsetningar fjölbýlishúss og stöðuna á húsnæðismarkaðnum í dag og Páll Gunnlaugsson arkítekt fór yfir tegund og hönnun íbúða í fyrirhuguðu fjölbýlishúsi.  Eftir framsögur voru fyrirspurnir úr sal.

Fyrir svörum sátu Eyjólfur Þórarinsson skipulagsfulltrúi, Ólafur Jakobsson byggingarfulltrúi, Guðný Hrund Karlsdóttir sveitarstjóri, Engilbert Runólfsson verktaki og Óskar Örn Gunnarsson skipulagsfræðingur.

Júlíus Guðni Antonsson var fundarstjóri.  Ína Björk Ársælsdóttir og Helena Halldórsdóttir voru fundarritarar.

Skipulagið var fyrst auglýst sl. vor en vegna athugasemda og ábendinga var ákveðið að gera breytingar á skipulaginu og auglýsa aftur að undangengnum íbúafundi.  Helstu breytingar frá fyrri tillögu eru að lóðir á Tanga eru felldar út, lóðamörkum breytt, ný rútustæði, möguleg göngubrú og endurbætt gögn vegna íbúðalóðar og fornleifaskráningar. 

Gert er ráð fyrir að tillagan verði afgreidd af sveitarstjórn þann 8. febrúar nk. og fari í framhaldi af því í auglýsingu og þá málsmeðferð sem gildir samkvæmt skipulagslögum.

Var efnið á síðunni hjálplegt?