Upplýsingaskilti á Borðeyri

Sjálfboðaliðr icelandic Roots við Riishús á Borðeyri.
Sjálfboðaliðr icelandic Roots við Riishús á Borðeyri.

Félagið Icelandic Roots færði sveitarfélaginu á dögunum upplýsingaskilti um ferðir vesturfara frá Borðeyri undir lok 19. aldar, ásamt trjáplöntum til að gróðursetja við Borðeyri.  Á skiltinu koma fram upplýsingar um vesturfaratímabilið og trjáplönturnar eru tákn um "lifandi" samstarf milli Íslendinga og Vestur-Íslendinga.

Gjafirnar voru afhentar við hátíðlega athöfn á Borðeyri og var viðstöddum í kjölfarið boðið til kaffis í Riis húsi. 

Félagið Icelandic Roots var stofnað árið 2013 með það að markmiði að efla áhuga og þekkingu um Íslandssögu og menningu en líka til að styrkja samband Íslendinga og Vestur-Íslendinga. Á 10 ára afmæli félagsins komu sjálfboðaliðar þess saman á Íslandi til að kynnast íslenskri náttúru en líka til að gefa til baka til samfélags forfeðra sinna. Valdar voru fimm hafnir þaðan sem flestir lögðu upp í ferð sína vestur um haf. Hafnirnar sem fengu gjafir frá félaginu voru Seyðisfjörður, Vopnafjörður, Akureyri, Sauðárkrókur og Borðeyri. Nánari upplýsingar um félagið er að finna á heimasíðu þess.

Félaginu eru færðar þakkir fyrir höfðinglega gjöf og þá ræktarsemi sem það sýnir Borðeyri með henni.

Þorleifur Karl Eggertsson oddviti sveitarstjórnar veitti skiltinu viðtöku fyrir hönd sveitarfélagsins. Með honum á myndinni eru frá vinstri: Cathy Josephson (formaður Vesturfaramiðstöðvar Austurlands á Vopnafirði og Icelandic Roots teymisins á Íslandi), Sunna Furstenau (formaður Icelandic Roots) og Þórdís Edda Guðjónsdóttir (ættuð frá Borðeyri og  sjálfboðaliði í Icelandic Roots). 

Var efnið á síðunni hjálplegt?