Tvö ný útilistaverk

Veðurglugginn
Veðurglugginn

Á síðustu dögum hafa litið dagsins ljós tvö útilistaverk á Hvammstanga. Þau eru bæði eftir listamanninn Juan Arctic, þann sama og myndskreytti hafnarvogarhúsið sumarið 2024.

Fyrra verkið er selur á stóra vegginn við Brúarhvamm sem hefur fengið mikla athygli. Hann er unnin með hefðbundinni málningu og úðabrúsum og ótrúlegt hversu raunverulegur hann er. 

Síðara verkið er staðsett í fjörunni við Selasetrið og er unnið úr rekavið af Vatnsnesinu. Víða um land eru komnir upp einhverskonar "myndarammar" þar sem fólk getur stillt sér upp og tekið myndir sem svo eru birtar á samfélagsmiðlum. Gjarnan eru þetta hjörtu eða hefðbundnir rammar. Í stað þess að setja upp ramma eins og annarsstaðar var ákveðið að leita í efnivið sem er einkennandi fyrir svæðið og varð rekaviðurinn fyrir valinu. Í stólpana er svo rist með höfuðletri, vinstra megin Húna og hægra megin Þing. Þannig hefur verkið jafnframt vísun í íslenska þjóðmenningu. Verkið hefur fengið heitið Veðurglugginn enda má ætla að í gegnum "gluggann" verði útsýnið breytilegt eftir veðri.

Veðurglugginn.

Verkefnið var styrkt af Styrktarsjóði Brunabótafélags Íslands, eins og myndskreytingin á hafnarvogarhúsinu.

Myndskreytingin á hafnarvogarhúsinu sem unnin var sumarið 2024.

Var efnið á síðunni hjálplegt?