TILKYNNING FRÁ SVEITARSTJÓRN HÚNAÞINGS VESTRA

Á fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra þann 16. apríl sl. var eftirfarandi bókun gerð vegna uppsagna fjögurra starfsmanna Landsbankans hf. á Hvammstanga þann 8. apríl sl.

 

 „Sveitarstjórn Húnaþings vestra mótmælir harðlega ákvörðun stjórnenda ríkisbankans Landsbankans hf. um að segja upp fjórum af tíu starfsmönnum útibús bankans á Hvammstanga þann 8. apríl sl.  Með uppsögnum þessum hefur samfélaginu í Húnaþingi vestra verið veitt þungt högg. Til samanburðar má benda á að uppsögn þessara fjögurra starfsmanna jafngildir því að um fjögur hundruð starfsmönnum hefði verið sagt upp í Reykjavík á einum og sama deginum. Útibú Landsbankans hf. á Hvammstanga er eina fjármálastofnunin í Húnaþingi vestra sem telur um 1200 íbúa auk þess sem fjöldi viðskiptavina utan héraðs hefur um árabil átt viðskipti við fyrrum sparisjóð og nú útibú Landsbankans. Umrædd ákvörðun stjórnenda Landsbankans hf. veldur sérstökum vonbrigðum þegar horft er til þess að íslenska ríkið er eigandi bankans og þeirrar ímyndarstefnu sem Landsbankinn hf. hefur gefið út um „Samfélagslega ábyrgð“. Í þessu samhengi skal einnig nefnt að á sl. tveimur árum hefur Landsbankinn hf. skilað gríðarlegum hagnaði og arði til eigenda síns og nú eru uppi hugmyndir um greiðslu sérstaks kaupauka til starfsmanna bankans. Það er skoðun sveitarstjórnar Húnaþings vestra að í ljósi þessa hefðu bæði verið efni og ástæður til að huga að frekari uppbyggingu verkefna bankans víða á landsbyggðinni. Hætt er við að þau skilaboð sem Landsbankinn hf. gefur með uppsögnum þessum leiði til enn frekari fækkunar starfa á landsbyggðinni, lakari þjónustu og þess að staðbundin þekking og skilningur á ólíkum þörfum einstaklinga og atvinnulífs vítt og breitt um landið glatist ef hina eiginlegu fjármálaþjónustu á einungis að veita frá höfuðborgarsvæðinu. Vandséð er hvernig slík stefna geti samræmst útgefinni byggðastefnu stjórnvalda þ.e. eiganda Landsbankans hf. Sveitarstjórn Húnaþings vestra kallar eftir skýringum frá stjórnendum Landsbankans hf. á þeim aðgerðum sem gripið var til á Hvammstanga þann 8. apríl sl. og mun í framhaldinu óska eftir fundi þar um.“

Hvammstangi 18. apríl 2013
Skúli Þórðarson, sveitarstjóri.

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?