Til gamans...

1.maí               Verkalýðsdagurinn

Maímánuður hefst á þeim merka degi verkalýðsdeginum en frá árinu 1889 hefur 1. maí verið alþjóðlegur dagur verkalýðshreyfingarinnar. Þennan dag heldur verkalýðshreyfing upp á daginn með kröfugöngum og fundum. Fyrsta kröfugangan á Íslandi var farin í Reykjavík árið 1923. Einkennislag dagsins er Internationalinn sem stundum er kallaður Nallinn. Þetta er alþjóðlegur baráttusöngur verkalýðsins og sunginn og leikinn um allan heim þennan dag.

 

3. maí              Krossmessa á vori

Krossmessan var haldin hátíðleg til að minnast þess að þá mun krossinn sem Kristur var krossfestur hafa fundist árið 320.

 

10. maí            Eldaskildagi

Á eldaskildaga var landeigendum og prestum skilað búfé sem leiguliðar og sóknarbörn höfðu haft í eldi fyrir þá um veturinn. Leiguliðar þurftu að borga landeigendum leigu fyrir jarðnæði og gerðu það oft með því að fóðra fyrir þá skepnur.

 

11. maí            Mæðradagurinn og Lokadagur

Hinn alþjóðlegi mæðradagur er upprunninn í Bandaríkjunum árið 1907 en var fyrst haldinn hátíðlegur á Íslandi árið 1934 á vegum Mæðrastyrksnefndar. Bandarísk kona, Anna M. Jarvis, missti móður sína 9. maí 1905. Hún minntist hennar á næstu árum og skrifaði þúsundir bréfa til áhrifamanna í Bandaríkjunum árið 1908, þar sem hún hvatti til þess að annar sunnudagur í maí yrði helgaður mæðrum. Á þessum degi fá mæður gjarnan blóm eða annan glaðning.

 

Þann 11. maí er lokadagur vetrarvertíðar á Suðurlandi. Vertíðin hófst 3. febrúar og stóð því yfir í rúma þrjá mánuði. Á lokadag var vetrarhlutur sjómanna gerður upp og menn gerðu sér glaðan dag. Skipseigandi eða svokallaður formaður, sem var skipstjórinn, hélt matar- eða kaffiveislu og jafnframt var vel veitt af brennivíni.

 

12. maí            Alþjóða farfugladagurinn

Það er gaman að fylgjast með komu farfuglanna og á síðunni www.fuglar.is er tíundað hvar og hvenær til þeirra hefur sést. Námsgagnastofnun lét útbúa eyðublöð fyrir yngsta stig, Vasafuglabókina, sem gott er að nota við athugun á fuglum. Eins er gaman að fræðast um fuglana á Fuglavefnum en þar er líka hægt að hlusta á hljóð þeirra og skoða myndir.

 

14. maí            Vinnuhjúaskildagi og afmæli forseta Íslands

Við vinnuhjúaskildaga miðaðist ráðningartími vinnufólks í sveitum. Forðum daga þurfti margt vinnufólk til að sinna sveitaverkum, vélarnar höfðu ekki leyst manninn af hólmi eins og nú. Ýmsar reglur voru um ráðningarmál vinnufólks. Meðal annars mátti ekki það ekki ráða sig hjá fleirum en einum og taldist vinnufólk  ráðið ef það hafði verið þrjár nætur í vist.

 

Þennan sama dag, 14. maí, er afmælisdagur forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar.

 

16. maí            Kóngsbænadagur

Ísland var hluti af Danaveldi í margar aldir eða frá 1380 til 1944 þegar Íslendingar endurheimtu fullt sjálfstæði sitt og lýðveldi var stofnað. Danakonungur fyrirskipaði almennan bænadag í ríkjum sínum árið1686 en þá áttu menn að leggja niður vinnu, fasta og leggjast á bæn. Árið 1893 lagði Alþingi niður þessa fyrirskipun konungs.

 

26. maí            Gangdagar

Dagarnir þrír, mánudagur, þriðjudagur og miðvikudagur, á undan uppstigningardegi eru kallaðir gangdagar. Gangdagar lenda eins og uppstigningardagur á misjöfnum tíma frá apríllokum til júníbyrjunar, allt eftir því hvenær páskar eru ár hvert. Fimmti sunnudagur eftir páska er bænadagur í kirkjunni. Hið latneska heiti dagsins er: Rogate (biðjið).

 

Nafn sunnudagsins Rogate tengist hinum gamla sið í kristninni til sveita að ganga bænagöngu um akrana eða umhverfis þá og biðja fyrir góðri uppskeru. Þessi siður er enn við lýði í kaþólskum sið. Gangan hófst á sunnudeginum og hélt áfram næstu þrjá daga. Þeir dagar tóku í þýðingum mið af göngunni en ekki bæninni og heita því gangdagar í íslenskum textum, en dies rogationes á latínu. Þegar gangdagar enda kemur uppstigningardagur.

 

29. maí            Uppstigningardagur

Uppstigningardagur er 40 dögum eftir páska. Þá er þess minnst þegar Jesús steig upp til himna og kvaddi lærisveina sína. Dagurinn er einn fárra helgidaga þjóðkirkjunnar sem ekki var afnuminn við siðaskiptin árið 1550.

 

31. maí            Alþjóðlegur tóbaksvarnardagur

Hér á landi hefur dagurinn verið nefndur „reyklausi dagurinn“ en honum er ætlað að minna fólk á skaðsemi tóbaks og vera því hvatning til að hætta að reykja. Á heimasíðu landlæknisembættisins má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar og fræðsluefni um tóbaksvarnir. 

 

heimild: www.nams.is

Var efnið á síðunni hjálplegt?