15 milljóna króna styrkur til innviðauppbyggingar á Laugarbakka

Laugarbakki í Miðfirði. Mynd Markaðsstofa Norðurlands.
Laugarbakki í Miðfirði. Mynd Markaðsstofa Norðurlands.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur úthlutað styrkjum til 12 verkefna á landsbyggðinni úr verkefnapotti byggðaáætlunar sem gengur undir heitinu Sértæk verkefni sóknaráætlunarsvæða. Alls var 130 milljónum úthlutað. 

Húnaþing vestra  sendi inn umsókn sem bar yfirskriftina Styrking innviða á Laugarbakka í Miðfirði til eflingar atvinnustarfsemi. Verkefnið hlaut styrk upp á kr. 15 milljónir en það snýr að lagningu kaldavatnslagnar frá Hvammstanga að Laugarbakka. Framkvæmdin er mikilvægur þáttur í að bæta búsetuskilyrði á Laugarbakka og styrkja innviði svo efla megi atvinnustarfsemi á svæðinu.

Tvö önnu verkefni sem hlutu styrk hafa tengsl við Norðurland vestra. Þau eru: 

Verðmætasköpun á sauðfjárræktarsvæðum. Verkefnið er hvati til nýsköpunar og verðmætasköpunar í strjálbýli sem á mikið undir sauðfjárrækt og miðar að því að tryggja byggðafestu. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hljóta styrk að upphæð kr. 21.600.000.

Straumhvörf – ný hringrás gesta um Austur- og Norðurland. Um er að ræða samstarf SSA, SSNV, SSNE, áfangastofa Norður- og Austurlands, Austurbrúar og Markaðsstofu Norðurlands um framkvæmd hönnunar- og vörusmiðju nýrrar hringrásar ferðamanna um Austur- og Norðurland í tengslum við beint millilandaflug á Egilsstaði og Akureyri. Styrkur að upphæð 15.650.000 kr.

Nánari upplýsingar um úthlutunina er að finna á heimasíðu Innviðaráðuneytisins.

Var efnið á síðunni hjálplegt?