SSNV auglýsa eftir framkvæmdastjóra

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) auglýsa eftir framkvæmdastjóra. Eins og fram kom í Feyki og á feyki.is á dögunum hefur Bergur Elías Ágústsson, sem gegnt hefur starfinu frá áramótum látið af störfum er hann farinn til starfa hjá þýska fyrirtækinu PCC.

SSNV er þjónustu- og samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra og sér um mikilvæga sameiginlega málaflokka og hagsmunamál sveitarfélaga á starfssvæðinu. Verkefni SSNV eru fjölbreytt og snúa að hagsmunum svæðisins, atvinnuþróun og rekstri sameiginlegra verkefna sveitarfélaganna sem að því standa. Höfuðstöðvar SSNV eru á Hvammstanga.

Í auglýsingunni segir að leitað sé að einstaklingi sem getur unnið sjálfstætt, sýnt frumkvæði og hefur góða hæfileika í mannlegum samskiptum. Hæfniskröfur eru að umsækjendur hafi háskólamenntun sem nýtist í starfi og marktæka reynslu af rekstri. Þekking á sveitarstjórnarmálum æskileg.

Umsóknarfrestur er til og með 21.september nk. Gengið verður frá ráðningu sem fyrst. Umsækjendur skulu senda umsóknir og starfsferilsskrár til stra@stra.is Þeir sem eiga fyrirliggjandi umsóknir skulu senda rafpóst eða hringja og tilkynna þátttöku.

Var efnið á síðunni hjálplegt?