Rafíþróttir í Húnaþingi

Rafíþróttir í Húnaþingi

Vorið 2020 var hrundið af stað verkefninu “Rafíþróttir í Húnaþingi”. Ætlunin með því var að auka úrval afþreyingar fyrir krakka í Húnaþingi vestra, en einnig að skapa framtíðaraðstöðu fyrir rafíþróttir sem gæti líka nýst í önnur verkefni.

Jóhannes Gunnar Þorsteinsson Ástuson og Aðalsteinn Grétar Guðmundsson höfðu haft verkefnið í bígerð síðan haustið 2019, en þegar grunnskólinn lenti í úrvinnslusóttkví í mars 2020 var ákveðið að drífa í að búa til vettvang þar sem krakkarnir gætu eytt tíma með vinum sínum í sýndarheimi og jafnvel eignast nýja vini í leiðinni.

Veturinn 2020-2021 tók félagsmiðstöðin Órion þátt í tveimur rafíþróttamótum á vegum Samfés, og var sett upp tímabundin aðstaða í Órion fyrir mótin. Í vor var síðan hafið samstarf við Órion og Húnaklúbbinn, og í leiðinni ákveðið að nefna rafíþróttahluta Húnaklúbbsins “Rafhúna”. Jessica Aquino, formaður Húnaklúbbsins, á mikinn heiður skilið fyrir að útvega fjármögnun fyrir verkefnið. Jóhannes og Aðalsteinn sáu síðan um val, innkaup og uppsetningu á tölvunum. Keyptar voru inn fimm tölvur ásamt öllum aukahlutum, og sérstakar þakkir fá Rafíþróttasamtök Íslands sem gáfu Húnaklúbbinum fimm hágæða leikjastóla frá Secretlab sem voru notaðir á heimsmeistaramótinu í League of Legends, einu stærsta rafíþróttamóti heims, í Laugardalnum í byrjun sumars.

Er það von allra sem að verkefninu standa að þessi nýja aðstaða muni nýtast sem flestum í sveitarfélaginu.

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?