Óskað eftir tilboðum í jörðina Engjabrekku

Óskað eftir tilboðum í jörðina Engjabrekku

Húnaþing vestra óskar eftir tilboðum í jörðina Engjabrekku á Vatnsnesi (fastanúmer 213-4708). Um er að ræða eyðijörð í Þorgrímsstaðadal. Jörðin er um 1400 hektarar. Á henni eru engin mannvirki en má sjá móta fyrir húsatóftum. Ekkert ræktað land tilheyrir jörðinni og hefur hún helst verið notuð sem afréttarland fyrir sauðfé. 

Jörðin á landamerki að norðanverðu við Tungu og þar eru merkin við Seljagil uppp að vatnaskilum og suður fjallið til móts við þröskuld úr Ásgarðsdalsbotninum, þaðan beint í vestur í Kaldaklofaþröskuld í Ambáttardal, þaðan norður Ambáttardalsá út til ármóta. Svo ræður Þorgrímsstaðaá út til Seljagils. Jarðir sem liggja að Engjabrekku eru auk Tungu að norðan, Egilsstaðir að austan, Tungukot að sunnan, Hlíð, Þorgrímsstaðir og Ásbjarnarstaðir að vestan. Þegar sunnar dregur skiptist jörðin í tvo dali innst í Þorgrímsstaðadal sem heita Ásgarðsdalur hinn eystri og Ambáttardalur hinn vestari. Milli þeirra er fjallið Miðtunga. Eftir dölunum falla samnefndar bergvatnsár sem sameinast fyrir neðan tungusporðinn og heitir þá Þorgrímsstaðaá norður að landamerkjum Tungu. Minniháttar veiðihlunnindi í Tjarnará fylgja jörðinni. 

Tilboðum óskast skilað í Ráðhús Húnaþings vestra, Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstanga,  í lokuðu umslagi merktu Engjabrekka-tilboð fyrir kl. 12 þann 26. mars 2024. Tilboð verða opnuð að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska kl. 14 sama dag í fundarsal Ráðhússins.

Tilboðum skal fylgja lýsing bjóðanda á fyrirhuguðum notum jarðarinnar. 

Réttur er áskilinn til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum. 

Nánari upplýsingar veitir Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri, netfang: unnur@hunathing.is

Var efnið á síðunni hjálplegt?