Sveitarfélagið vinnur nú að undirbúningi framtíðarsýnar fyrir húsnæði og lóð leikskólans. Markmiðið er að tryggja börnum, starfsfólki og samfélaginu öruggt, heilsusamlegt og skapandi umhverfi sem stenst kröfur framtíðarinnar.
Starfshópur hefur farið yfir stöðu leikskólans, skoðað lög og reglur, mannfjöldaspár og safnað hugmyndum um mögulegar úrbætur og þróun. Nú er kallað eftir sjónarmiðum foreldra, íbúa og annarra hagsmunaaðila áður en næstu skref eru tekin.
Af hverju er verið að skoða þetta núna?
- Núverandi húsnæði og lóð eru komin að ákveðnum takmörkum.
- Mikilvægt er að leikskólinn þróist í takt við þarfir barna, fjölskyldna og samfélagsins alls.
- Tækifæri eru til að bæta öryggi, aðgengi, útirými og tengsl við nærumhverfi.
Helstu þættir sem verið er að skoða
Húsnæði leikskólans
- Hvernig eigi að stækka eða endurskipuleggja leikskólann.
- Betra flæði og aðgengi innan húss fyrir börn og starfsfólk.
- Bætt aðstaða fyrir hvíld, leik, hreyfingu og skapandi starf.
- Skýrari og betri vinnuaðstaða fyrir starfsfólk, skrifstofur og fundarrými.
- Endurskoðun á eldhúsi, matsal og stoðrýmum.
- Algild hönnun og gott aðgengi fyrir alla, óháð færni eða aldri.
- Möguleiki á áfangaskiptri uppbyggingu til að halda starfsemi gangandi á framkvæmdatíma.
Útisvæði og skólalóð
- Endurnýjun og þróun leiksvæða fyrir yngri og eldri börn.
- Fjölbreyttur leikur: hreyfing, náttúrulegur leikur, vatnsleikur, róleg svæði og útikennsla.
- Skuggasvæði og skjól, m.a. gegn norðanátt.
- Hugmyndir um að þróa Kvenfélagsgarðinn sem hluta af útisvæði leikskólans, með mögulegri sameiginlegri notkun fyrir íbúa utan opnunartíma.
- Bætt öryggi á lóð, gott yfirlit og viðeigandi lýsing.
Umferð, öryggi og nærumhverfi
- Bætt aðgengi að leikskólanum fyrir gangandi, hjólandi og akandi.
- Endurskoðun á bílastæðum fyrir starfsfólk og gesti.
- Hugmyndir um hámarkshraða og aukið umferðaröryggi í kringum leikskólann.
- Betri gangbrautir og lýsing.
- Skoðað hvort hægt sé að draga úr gegnumakstri og skapa barnvænna umhverfi.
Þín skoðun skiptir máli
Við viljum heyra frá þér:
- Hvað finnst þér mikilvægast þegar kemur að húsnæði leikskóla?
- Hvernig viltu sjá útisvæði leikskólans þróast?
- Hvaða tækifæri sérð þú fyrir samfélagið í kringum leikskólann?
- Eru einhverjar áhyggjur eða hugmyndir sem þú vilt koma á framfæri?
Allar ábendingar, hugmyndir og sjónarmið munu nýtast í áframhaldandi vinnu við mótun framtíðarsýnar og ákvarðanatöku.
Óskað er ábendinga og athugasemda hér í síðasta lagi 8. febrúar 2026.