Nýr sveitarstjóri tekinn til starfa

Unnur tekur við lyklum að ráðhúsinu úr hendi Ragnheiðar Jónu Ingimarsdóttur fráfarandi sveitarstjóra…
Unnur tekur við lyklum að ráðhúsinu úr hendi Ragnheiðar Jónu Ingimarsdóttur fráfarandi sveitarstjóra.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, nýr sveitarstjóri Húnaþings vestra, tók til starfa 1. september sl. Unnur hefur starfað sem framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sl. 4 ár en þar áður var hún framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands. Kjörtímabilið 2014-2018 var hún oddviti sveitarstjórnar í Húnaþingi vestra. Um árabil starfaði hún við ráðgjöf og námskeiðahald á fyrirtækjamarkaði. Unnur er með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og B.Ed. próf frá Kennaraháskóla Íslands auk þess að hafa lokið diplomanámi í rekstri og stjórnun frá Endurmenntun Háskóla Íslands og stjórnendamarkþjálfanámi frá Opna Háskólanum og CoachU.

,,Ég er full tilhlökkunar að takast á við þetta krefjandi verkefni. Fyrstu dagana hef ég nýtt í að heimsækja stofnanir sveitarfélagsins og það ágæta fólk sem þar starfar. Ég bý svo vel að þekkja samfélagið hér býsna vel og þekki þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir en ekki síður þau tækifæri sem hér er að finna. Stóra verkefnið er að finna jafnvægið milli þess að takast á við áskoranirnar og vinna ötullega að þeim tækifærum sem efla samfélagið enn frekar, í mínum huga eru þau tækifæri fjölmörg. Ég tek við afar góðu búi af fráfarandi sveitarstjóra, Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur, og vil þakka henni sérstaklega fyrir sín góðu störf í þágu samfélagsins á undanförnum árum’’ segir Unnur

Eiginmaður Unnar er Alfreð Alfreðsson, húsasmíðameistari. Eiga þau 3 börn og eitt barnabarn.

Var efnið á síðunni hjálplegt?