Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Mynd: Samgöngustofa
Mynd: Samgöngustofa

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Að baki minningardeginum standa auk Samgöngustofu, innviðaráðuneytið, Sjálfsbjörg, Landsbjörg, lögreglan og Vegagerðin. 

Á vef Samgöngustofu kemur fram að dagurinn er til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni en ekki hvað síst að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á öryggi óvarinna vegfarenda. Einnig leiðum við hugann að þeim sem hafa orðið valdir að umferðarslysum.

Hvers vegna minningardagur?

Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Það eru u.þ.b. 1.3 milljónir á einu ári.
Frá því að fyrsta banaslysið var skráð á Íslandi 25. ágúst 1915, hafa þann 29. september 2022, samtals 1601 einstaklingur látist í umferðinni. Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.

Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni. Það er því til mikils að vinna að koma í veg fyrir slysin og megi þessi dagur efla vitund okkar fyrir því og ábyrgð.

Lagið When I think of Angels er orðið einkennislag minningardagsins hér á landi. Það er samið af KK og sungið af systur hans Ellen. Kristján samdi lagið til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. 

Var efnið á síðunni hjálplegt?