Lið Grunnskólans kom, sá og sigraði í Fiðringi

Lið Grunnskóla Húnaþings vestra sem bar sigur úr býtum í Fiðringi 2025.
Lið Grunnskóla Húnaþings vestra sem bar sigur úr býtum í Fiðringi 2025.

Lið Grunnskóla Húnaþings vestra kom, sá og sigraði í Fiðringi, hæfileikakeppni fyrir nemendur í 8.-10. bekk, sem haldin var á Akureyri. Keppnin er í anda Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi. Var þetta í fyrsta skiptið sem Grunnskólinn á lið í keppninni.

Unglingarnir okkar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu keppnina með áhrifamiklu og metnaðarfullu atriði sem fjallaði um baráttu kvenna í gegnum tíðina. Innblásturinn fékk hópurinn eftir fræðslu sem 10. bekkur fékk um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands. Opnaði sú fræðsla augu þeirra fyrir langri og strangri réttindabaráttu kvenna. Einnig höfðu núverandi atburðir úti í heimi áhrif á ákvörðun þeirra að fjalla um baráttu kvenna.

Atriðið fékk frábærar undirtektir og stóð hópurinn sig með mikilli prýði, bæði á sviði og bak við tjöldin.

Við óskum hópnum innilega til hamingju með verðskuldaðan sigur. Þau sýndu kjark, dug, þor og mikinn metnað í vinnu sinni við undirbúning og á lokakvöldinu. 

Atriðið var flutt af Anítu Rós, Álfhildi, Friðrikku, Fríðu, Gabríelu, Ingu Lenu, Íseyju Lilju, Júlíu, Líneyju, Rakel og Valdísi.

Bríet Anja, Emelía Íris og Ronja Dís tóku einnig þátt í undirbúningum og Ari Karl og Benni voru tæknimenn.

Upptöku af atriðinu má finna hér.

Sigurliðið fagnar. Mynd: Friðringur.

Var efnið á síðunni hjálplegt?