Kveðjur til Grindvíkinga

Mynd: Almannavanir
Mynd: Almannavanir

Okkur setur öll hljóð yfir atburðunum í Grindavík. Við fylgjumst bjargarlaus með hvernig náttúran beitir sínum ægikröftum svo ekkert fær við ráðið. Engu sem fyrir verður er eirt.  Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum sem enn á ný bíða milli vonar og ótta í algerri óvissu um framtíðina. 

Við sendum Grindvíkingum öllum og öðrum þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara hræðilegu náttúruhamfara allan okkar styrk. Aðalsmerki íslensks samfélags er samheldnin þegar á bjátar. Við munum öll sem eitt gera allt það sem í okkar valdi stendur til að styðja við samfélagið í Grindavík á meðan á hamförunum stendur og þegar þeim lýkur, vonandi sem allra fyrst.  

Einnig færum við þeim sem nú standa vaktina, almannavörnum, viðbragðsaðilum öllum og ekki síst okkar framúrskarandi vísindamönnum hlýjar kveðjur og óskum þeim alls hins besta í þeirri miklu vinnu sem þau standa nú frammi fyrir. 

F.h. sveitarstjórnar Húnaþings vestra

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.

Var efnið á síðunni hjálplegt?