Hverfahleðslustöðvar teknar í notkun á Hvammstanga

Hverfahleðslustöðvar teknar í notkun á Hvammstanga

Fyrstu hverfahleðslustöðvarnar hafa verið teknar í notkun á Hvammstanga. Þær voru settar upp í samstarfi við ON með styrk frá Orkusjóði. Tengill ehf. annaðist uppsetningu. Stöðvarnar eru staðsettar við neðra bílaplan Félagsheimilisins á Hvammstanga og við norðurhlið íþróttamiðstöðvar, fjórar stöðvar á hverjum stað.

Hverfahleðslur ON eru settar upp í alfaraleið fyrir rafbílaeigendur. Þær gefa fólki kost á að hlaða við sundlaugar, menningarhús, íþróttamiðstöðvar, skóla og leikskóla. Þær eru einnig hentugar fyrir fólk sem vill hlaða bílinn í sínu hverfi og eiga ekki kost á að hlaða heima við. Nánari upplýsingar um stöðvarnar og hvernig þær virka eru að finna á heimasíðu ON. Þar má sækja app eða panta ON lykil til að nýta stöðvarnar. Slíkir lyklar eru einnig til afhendingar í Ráðhúsi Húnaþings vestra.

Þorleifur Karl Eggertsson oddviti sveitarstjórnar og Haraldur Sigfús Magnússon sérfræðingur á markaðssviði ON voru þeir fyrstu til að stinga í samband við Félagsheimilið.

"Uppbygging innviða er órofa þáttur í orkuskiptunum" segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra. "Það er von okkar að þetta fyrsta skref sveitarfélagsins í þeirri innviðauppbyggingu nýtist bæði íbúum og gestum okkar vel. Við færum Orkusjóði jafnframt kærar þakkir fyrir styrkinn til verkefnisins ásamt þeim verktökum sem komu að uppsetningunni."

Þorleifur Karl oddviti stingur í samband við opnun stöðvanna.

Frá opnun stöðvanna. Unnur Valborg sveitarstjóri, Björn Bjarnason rekstrarstjóri, Magnús Eðvaldsson sveitarstjórnarmaður, Þorleifur Karl Eggertsson oddviti, Sigríður Ólafsdóttir sveitarstjórnarmaður, Ragnar Ólafsson húsvörður Félagsheimilisins, Þorgrímur Guðni Björnsson sveitarstjórnarmaður, Haraldur Sigfús sérfræðingur á Markaðssviði ON og Gísli Már Arnarson frá Tengli.

Var efnið á síðunni hjálplegt?