Hugleiðing slökkviliðsstjóra

Hugleiðing slökkviliðsstjóra

Kæru íbúar Húnaþings vestra.

Fyrir um mánuði síðan tók ég við starfi slökkviliðsstjóra hér í Húnaþingi og hef verið að koma mér inn í málin hér í sveitarfélaginu ásamt því að kynnast fólkinu, bæði hér í ráðhúsinu og strákunum í slökkviliðinu. Því eins og staðan er í dag eru eingöngu karlmenn í liðinu okkar en því þurfum við að breyta og fylgja betur tíðarandanum í þjóðfélaginu. Sl. 15 ár hafa konur komið sterkar inn, bæði í hlutastarfandi slökkviliði sem og atvinnuliði bæði erlendis og hér heima. Auglýst var um daginn eftir nýju fólki og ég vil hvetja fólk af öllum kynjum til að sækja um og bind ég vonir um að við fáum fjölbreyttari hóp inn fyrir árið 2024.

Starfið

Að mörgu er að hyggja í starfi slökkviliðsstjóra því þó að útköllin séu fá yfir árið – sem betur fer, þá eru brunavarnir ein af þeim mörgu einingum innan sveitafélagsins sem þarf að reka eins og fyrirtæki. Fara þarf í eldvarnarskoðanir, sinna forvörnum, passa upp á að tæki og búnaður liðsins sé í lagi, að hann uppfylli staðla og reglugerðir. Reikna þarf út laun fyrir útköll, æfingar og bakvaktir og einnig þarf að passa upp á að læknisskoðanir og þrekpróf séu í lagi árlega og svo mætti lengi telja.

Ég gerði mér grein fyrir því þegar ljóst var að ég myndi taka við stöðunni af Jóhannesi Kára sem unnið hefur mjög gott starf sl. 3 ár að þetta yrði mikil áskorun og í raun allt annað en það sem ég hef verið að gera sl. 22 ár, því núna er ég að færa mig af “götunni” og inn í rekstur heils slökkviliðs sem er krefjandi en mjög spennandi verkefni.

Aðeins um forvarnir

Á þessu ári hafa orðið um 13 brunar tengdir rafskútum og þess vegna langar mig að brýna fyrir íbúum að við verðum stöðugt að vera á verði og minna á að þrátt fyrir forvarnir þá virðast rafmagnsbrunar verða æ algengari og það er gríðaleg hætta sem fylgir þessum brunum. Ég legg áherslu á að við séum meðvituð um hættuna sem fylgir hleðslu á raftækjum. Aldrei skilja þessi rafmagnstæki eftir í hleðslu án eftirlits á heimili. Nú líður að jólum og mun ég skrifa meira um forvarnir í nánustu framtíð.

Æfingar og slökkvilið

Ég verð að segja að eftir mína fyrstu æfingu með liðinu sem fram fór sunnudaginn 15. október sl. þá líkar mér hvað ég sé. Í liðinu eru reynslumiklir einstaklingar ásamt nýrri og reynsluminni einstaklingum sem eru sumir að stíga sín fyrstu skref og eru í námi hjá Mannvirkjastofnun sem sér um menntun slökkviliðsmanna á Íslandi. Stefnt er að því að fleiri hefji nám 2024.

Æfingar eru nauðsynlegar og til þess að ná tökum á því sem við viljum vera góð í þá þarf að æfa og þar hefur liðið staðið sig vel. Liðið hefur æft markvisst, að jafnaði einu sinni í mánuði marga klukkutíma í senn þar sem æfingar og áherslur eru margar.

Tækjamál liðsins eru í þokkalegum farvegi en það er eitt og annað sem kemur í ljós á æfingum sem þessum. Þess vegna er nauðsynlegt að æfa, til þess að reka sig á veggi og gera betur næst eða bæta búnað sem stenst ekki kröfur.

En þegar aðventan og jólin fara að nálgast er gott að muna eftir yfirferð á eldvörnum á heimilum eins og reykskynjurum, eldvarnarteppum, slökkvitækjum og ekki síst jólaseríum. Meira um forvarnir síðar

 

Með best kveðju,

Valur Freyr

slökkviliðsstjóri Brunavarna Húnaþings vestra.

Var efnið á síðunni hjálplegt?