Hátíðarhöld á sumardaginn fyrsta

Frá hátíðarhöldum á sumardaginn fyrsta árið 2023.
Frá hátíðarhöldum á sumardaginn fyrsta árið 2023.

Allt frá árinu 1957 hefur sumardagurinn fyrsti verið haldinn hátíðlegur í Húnaþingi vestra. Upphaflega var hátíðin haldin til fjáröflunar Fegrunarfélagsins fyrir gróðursetningu í sjúkrahúsgarðinum á Hvammstanga. Í dag er sá garður orðinn stór og þéttur skógur. Þó hátíðin hafi ekki verið með nákvæmlega sama sniði öll þessi ár hefur Vetur konungur þó alltaf afhent Sumardísinni veldissprotann og hafa þau verið klædd í búningana sem forvígiskonur hátíðarinnar saumuðu. Frá upphafi og til ársins 2022 hélt Ingibjörg Pálsdóttir (Lilla) utan um hátíðarhöldin með aðstoð fjölskyldu sinnar og ýmissa félagasamtaka. Á síðasta ári tók Félag eldri borgara í Húnaþingi vestra við keflinu en auk þess að sjá um hátíðina sjálfa sáu þau um endurnýjun búninga en þar til þá höfðu upprunalegu búningarnir verið notaðir. 

Félag eldri borgara hefur tekið að sér að sjá um hátíðarhöldin í ár og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir það. Hátíðarhöldin á sumardaginn fyrsta skipa órofa sess í samfélaginu okkar og gott að vita af framkvæmd þeirra í góðum höndum. 

Sumardaginn fyrsta ber upp á 25. apríl í ár. Í þetta skiptið er hátíðin haldin í samstarfi við Hestamannafélagið Þyt og hefst með ókeypis sirkussýningu í Þytsheimum klukkan 12:00. Að henni lokinni verður haldið upp á sumardaginn fyrsta á hefðbundinn hátt með skrúðgöngu frá Reiðhöllinni Þytsheimum klukkan 14:00. Gengið verður niður að Félagsheimili með viðkomu á Sjúkrahúsinu. Að lokinni skrúðgöngu verður boðið til hátíðar í Félagsheimilinu. Þar afhendir m.a. Vetur konungur Sumardísinni veldissprota sinn. Börn úr fyrsta og öðrum bekk grunnskólans skemmta með söng.

Að þessu loknu er boðið í sumarkaffi. Á eftir verða spilaðar nokkrar umferðir í bingó þar sem glæsilegir vinningar eru í boði.

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?