Hárið valið „Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins“

Hárið valið „Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins“

Dómnefnd Þjóðleikhússins hefur valið sýningu Leikflokks Húnaþings vestra sem „Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins“. Valið var tilkynnt á hátíðarkvöldverði 4. maí í tengslum við aðalfund Bandalags íslenskra leikfélaga á Húsavík.

Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í tuttugasta og sjötta sinn. Að þessu sinni sóttu alls fimmtán leikfélög um að koma til greina við valið með sautján sýningar. Formaður dómnefndar var Atli Rafn Sigurðarson, en með honum í dómnefnd sátu þrír aðrir leikarar Þjóðleikhússins, þau Sigurður Sigurjónsson, Snæfríður Ingvarsdóttir og Þórey Birgisdóttir

Dómnefndin komst að þeirri niðurstöðu að velja sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2018-2019 sýningu Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu.

Umsögn dómnefndar um sýninguna: „Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu eftir Gerome Ragni og James Rado í leikstjórn Sigurðar Líndal Þórissonar skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2018-2019. Um efni Hársins þarf ekki að fjölyrða. Sýningin er hins vegar unnin af gríðarlegum metnaði og hvergi slegið af kröfum við uppfærsluna. Leikmynd, búningar og leikgervi, dansar, tónlistarflutningur, lýsing og hljóðblöndun skapa saman sterka heild. Stór leikhópurinn er skipaður hæfileikafólki sem nýtur sín í botn, og sterkur söngur, leikgleði og orka er allsráðandi. Afslappaður leikurinn skilar frásögninni á einlægan og einfaldan máta þannig að húmor og boðskapur verksins komast vel til skila. Það skal tekið fram að þetta er í fyrsta sinn sem sýning Leikflokks Húnaþings vestra er valin áhugasýning ársins, og það vakti sérstaka athygli dómnefndar hvað starfsemi leikflokksins er öflug í ár“

 „Þjóðleikhúsið óskar Leikflokki Húnaþings vestra til hamingju og býður leikfélaginu að koma og sýna Hárið á Stóra sviði Þjóðleikhússins í júní“

Við hjá Húnaþingi vestra óskum Leikflokknum innilega til hamingju með frábæra sýningu og verðskuldaða viðurkenningu.

Var efnið á síðunni hjálplegt?