Grænfáninn í Grunnskóla Húnaþings vestra

Grænfáninn í Grunnskóla Húnaþings vestra

Þann 6. janúar s.l. afhenti Orri Páll Jóhannsson fulltrúi Landverndar Grunnskóla Húnaþings vestra Grænfánann sem tákn um framúrskarandi starf að umhverfismálum í skólanum. Unnið hefur verið að þessu marki í nokkur misseri innan skólans en 25. mars 2009 sótti skólinn um að gerast skóli á grænni grein og þá hófst formlegur undirbúningur.

Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um góða fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Fánann fá skólar í kjölfar verkefna sem er ætlað að efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau efla þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri

Markmið Grænfánans eru:

Að bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
Að efla samfélagskennd innan skólans.
Að auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
Að styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
Að veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.
Að efla evrópska samkennd og tungumálakunnáttu.
Að tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.

Til að fá fánann þurfti skólinn að fullnægja eftirfarandi sjö skilyrðum:

1. Stofna umhverfisnefnd skólans.
2. Meta stöðu umhverfismála í skólanum.
3. Gera áætlun um aðgerðir og markmið
4. Stunda stöðugt eftirlit og endurmat til að tryggja að settum markmiðum sé náð.
5. Útbúa námsefni og verkefni
6. Að upplýsa og fá aðra með
7. Að setja skólanum umhverfissáttmála sem lýsir í stuttu máli markmiðum skólans og nemenda.

Þessi viðurkenning er afrakstur umfangsmikillar undirbúningsvinnu og mikils vinnuframlags allra sem að verkefninu hafa komið. Hafdís Brynja Þorsteinsdóttir, Pálmi Geir Ríkarðssonar og Pálína Fanney Skúladóttir hafa borið hitann og þungann af verkefninu síðustu misseri. Skólinn hefur nú leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö árin og viðurkenningin fæst endurnýjuð ef skólinn hefur haldið áfram góðu starfi í umhverfismálum.

Nú hafa allar skólastofnanir í Húnaþingi vestra fengið viðurkenningu Landverndar og Flagga nú Grænfánanum. Leikskólinn Ásgarður fékk afhendan grænfánann á sumarhátíð leikskólans þann 23. júní 2011 og Grunnskólinn á Borðeyri fékk afhendan grænfánann á vormánuðum 2011.

Grænfáninn í Grunnskóla Húnaþings vestra

Var efnið á síðunni hjálplegt?