Gjöf til bókasafns Húnaþings vestra

Gjöf til bókasafns Húnaþings vestra

Bókasafninu barst góð gjöf í gær þegar Elinborg Sigurgeirsdóttir fyrrverandi skólastjóri tónlistarskóla Húnaþings vestra færði safninu nótnasafn sitt sem spannar 43 ára starfsferil, þar sem hún síðustu 35 árin hefur verið leiðandi í tónlistarlífi Húnaþings vestra, við kennslu, sem organisti, stjórnandi og þátttakandi í fjölmörgum viðburðum

Elinborg fylgdi gjöfinni úr hlaði með fáeinum orðum þar sem hún gat um að á löngum tíma hefði hún safnað að sér margvíslegum nótum þar sem kenna þurfti á mismunandi hljóðfæri auk fjölbreyttra tónlistarverkefna. Það væri einnig hennar vilji að nóturnar yrðu til útlána frá safninu ef einhver vildi nýta sér það.

Þorleifur Karl Eggertsson oddviti tók fyrir hönd sveitarstjórnar á móti þessari höfðinglegu gjöf og þakkaði Elinborgu fyrir einstaklega mikið og gott tónlistarstarf og tónlistaruppeldi sem sannarlega væri tekið eftir á landsvísu.

Viðstaddir auk sveitarstjórnar og sveitarstjóra voru fulltrúar fræðslunefndar, tónlistarskólans og nokkrir fyrrverandi nemendur.

Safnið verður nú skráð og komið fyrir á aðgengilegum stað á bókasafninu þar sem gestir geta haft aðgang að því innan tíðar.

 

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?