Farsæld barna á Norðurlandi vestra í forgrunni

Sveitarstjórar sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra undirrita samning um sameiginlega ábyrgð á fars…
Sveitarstjórar sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra undirrita samning um sameiginlega ábyrgð á farsældarráðinu. Með þeim á myndinni er Sara Björk verkefnisstjóri hjá SSNV sem heldur utan um verkefnið.

Þann 27. nóvember sl. var farsældarráð Norðurlands vestra formlega stofnað með undirritun á samstarfssamningi sveitarfélaganna og samstarfsyfirlýsingu þjónustuaðila og stofnana í landshlutanum . Með stofnun farsældarráðsins hefst formlegt og mikilvægt samstarf allra sveitarfélaga og helstu stofnana sem þjónusta börn og fjölskyldur á svæðinu með það að markmiði að bæta enn frekar þjónustu og stuðning við börn og barnafjölskyldur. Farsældarráðið verður vettvangur sameiginlegrar stefnumótunar og samráðs í samræmi við lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Stofnun ráðsins markar upphaf að nýju samtali og aukinni samvinnu á milli þjónustuaðila ríkis og sveitarfélaga. 

 

Fulltrúar þjónustuaðila og stofnana í landshlutanum undirrita samstarfsyfirlýsinguna. Í ráðinu eiga sæti fulltrúar frá Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Lögregluembætti Norðurlands vestra, Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, svæðisstöðvum íþróttahéraða og kirkjunni á Norðurlandi vestra. Einnig mun óstofnað ungmennaráð Norðurlands vestra eiga sæti í farsældarráðinu.

Við erum stolt af því að hafa stigið þetta skref og hlökkum til að fylgjast með störfum ráðsins. Við bindum vonir til að tilurð þess verði til þess að styðja enn frekar við börn og ungmenni í landshlutanum, hlúa að þeim og auka farsæld þeirra. 

Var efnið á síðunni hjálplegt?