Þann 1. janúar 2026 verður nýtt leiðakerfi landsbyggðarvagna tekið í notkun.
Nýja kerfið er í raun endurhönnun á eldra leiðakerfi sem er 13 ára gamalt og hefur ekki verið uppfært í takt við uppbyggingu þéttbýliskjarna eða þær breytingar á íbúa- og byggðamynstri sem orðið hafa síðan.
Markmiðið með breytingunum er að þróa heildarmynd leiðakerfisins á landsbyggðnni, að þjónusta við vinnu- og skólasóknarsvæða verði sem best og að þjónusta milli landshluta sé samræmd. Ein af áherslunum í þessari endurhönnun er að tengja landsbyggðarvagna við innanbæjarkerfi þar sem þau eru til staðar.
Allar breytingarnar byggja á og eru gerðar í samráði við hagaðila og til að fylgja þeim eftir er fyrirhugað að Vegagerðin haldi samráðsfundi með hagaðilum.
Allar upplýsingar um breytt leiðakerfi er að finna á heimasíðu Strætó bs., www.straeto.is

Helstu breytingar á Norðurlandi eru þær að leið 57 verður skipt í tvær akstursleiðir, leið 50 og leið 57. Leiðin milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness verður þar með óháð leggnum milli Reykjavíkur og Akureyrar. Nýja leiðin fær númerið 50 og mun leið 57 sinna áfram akstri milli Akureyrar og Reykjavíkur, en án viðkomu á Akranesi. Íbúar á Akranesi sem vilja ferðast norðar en Borgarnes taka leið 50 í Borgarnes og tengjast þar leið 57 til að ferðast áfram norður. Stoppistöðin Þórunnarstræti/sjúkrahús bætist einnig við í tímatöflu leiðar 57 á sunnudögum á leggnum Reykjavík-Akureyri og er hún hugsuð fyrir nemendur á heimavist MA og VMA.
Leið 56 sem ekur á milli Akureyrar og Egilsstaða verður snúið við og mun upphafs- og endastöð leiðarinnar vera Egilsstaðir í stað Akureyrar. vagninn mun einnig aka í öllum ferðum til og frá Akureyrarflugvelli.
Allar akstursleiðir sem aka inn á Akureyri munu hafa Akureyrarflugvöll sem stoppistöð í tímatöflu, þ.e. leiðir 56, 57, 78 og 79. Þá geta íbúar á Akureyri nýtt sér ferðir leiða 78 og 79 til og frá Akureyrarflugvelli.
Hægt er að ferðast með reiðhjól á öllum leiðum á meðan pláss leyfir á hjólagrind.

