Aðalskipulagsbreyting
Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkti á fundi sínum þann 12. júní 2025 að auglýsa óverulega breytingu á aðalskipulagi Húnaþings vestra 2014–2026 í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Breytingin tekur til svæðis merkt Vb-19 við félagsheimilið Víðihlíð við þjóðveg 1. Um er að ræða 2,5 ha svæði sem samkvæmt gildandi aðalskipulagi er skilgreint fyrir eldsneytisafgreiðslu og starfsemi tengda félagsheimilinu. Með breytingunni verður svæðið skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði, þar sem fyrirhugað er að reisa 15 kúluhús til gistingar ásamt bílastæðum. Aðstaða fyrir þjónustu verður innan félagsheimilisins.
Sveitarstjórn telur breytinguna óverulega þar sem hvorki er um að ræða stækkun reits né breytingu á notkun sem hefur í för með sér veruleg umhverfisáhrif. Breytingin fellur innan ramma gildandi landnotkunar.
Tillagan er aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins hunathing.is og í Skipulagsgáttinni á skipulagsgatt.is.
Deiliskipulagstillaga fyrir svæðið við Víðihlíð
Í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér með auglýst tillaga að deiliskipulagi fyrir ofangreint svæði við Víðihlíð. Tillagan er unnin samhliða breytingu á aðalskipulagi og auglýst samtímis.
Markmið deiliskipulagsins er að skilgreina ferðamannaþjónustusvæði þar sem áformað er að byggja 15 kúluhús til gistingar með tilheyrandi aðstöðu fyrir heita potta og aðra þjónustu. Félagsheimilið Viðihlíð verður nýtt sem aðstöðuhús fyrir þjónustuna.
Skipulagssvæðið nær til lóða nr. L144645 og L229404 og er heildarstærð þess 23.585 m². Á svæðinu eru nú þrjár byggingar, þar á meðal félagsheimilið Viðihlíð sem reist var árið 1938 og stækkað 1956 og 1963, auk eldsneytisafgreiðslu og spennistöðvar.
Markmið deiliskipulagsins er að efla gistiþjónustu og afþreyingu á svæðinu með því að nýta núverandi innviði og byggingar á hagkvæman hátt.
Athugasemdir og ábendingar
Frestur til að skila inn athugasemdum eða ábendingum er til og með 22. ágúst 2025.
Athugasemdir skulu berast skriflega með skýrum tilvísunum annað hvort sem:
- „Aðalskipulagsbreyting Víðihlíð“
- „Deiliskipulag Víðihlíð“
og skulu sendar á netfangið bogi.kristinsson@hunathing.is, með bréfpósti á skrifstofu skipulagsfulltrúa, Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstanga, eða í gegnum Skipulagsgáttina.
Skipulagsfulltrúi Húnaþings vestra
Bogi Kristinsson Magnusen